Reif buxurnar á sviði svo nærbuxurnar blöstu við

Leikurum og öðrum aðstandendum sýningarinnar var vel fagnað að lokinni frumsýningu í gærkvöld.
Leikurum og öðrum aðstandendum sýningarinnar var vel fagnað að lokinni frumsýningu í gærkvöld.

Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Samkomuhúsinu í gærkvöld, Svörtu kómedíuna, sem er gamanleikur af bestu gerð. Sýningin gekk í alla staði vel og voru áhorfendur hrifnir og tóku vel undir á meðan á sýningunni stóð. Ekki vildi betur til en svo að Árni Pétur Guðjónsson reif gat á buxurnar sínar á miðju sviði undir lok sýningarinnar.

Árni var að beygja sig niður til að loka hlera á gólfinu þegar óhappið varð en tókst að klára sýninguna án þess að áhorfendur urðu varir við óhappið. „Ég einfaldlega fór með veggjum síðustu mínúturnar,“ segir Árni og hlær. Leikurinn gerist í London árið 1965. Ungur, fátækur listamaður sem leikinn er af Einari Aðalsteinssyni og unnusta hans, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, fá ríkulega antíkhúsmuni að láni án leyfis frá nágranna sínum, Árna Pétri, til að ganga í augun á föður hennar sem leikinn er af Guðmundi Ólafssyni. Þýskur auðkýfingur, Gestur Einar Jónasson, er væntanlegur til að skoða verk listamannsins unga en þá fer rafmagnið af. Fröken Furnival, sérlega skemmtilegur karakter leikinn af Sunnu Borg sest upp á unga parið og eigandi húsgagnanna kemur óvænt heim. Enn kárnar gamanið þegar fyrrverandi ástkona, Þóra Karítas Árnadóttir, mætir óboðin og heimspekilegur rafvirki, Ívar Helgason, reynir að bjarga málunum. Eins og við er að búast er útkoman skelfilegur og sprenghlægilegur glundroði fyrir alla fjölskylduna.

Nýjast