Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur jákvætt í ósk bæjarstjórnar Akureyrar um gerð fýsileikakönnunar varðandi mögulega sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þetta kemur fram í bréfi sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps til Akureyrarbæjar.
Eins og Vikudagur hefur fjallað um hefur bæjarstjórn Akureyrar samþykkt að óska eftir samstarfi við önnur sveitarfélög í Eyjafirði um að gera
fýsileikakönnun á sameiningu sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag. Um er að ræða sameiningu sjö sveitarfélaga sem eru Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandahreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Dalvík og Fjallabyggð.
Í bréfi Svalbarðsstrandarhrepps segir ennfremur: „Sveitarstjórn tekur undir sjónarmið bæjarstjórnar um að mikilvægt sé að taka málefnalega umræðu um þessi mál á grundvelli væntanlegrar könnunar. Jafnframt skal undirstrika að vilji meirihluta íbúa sveitarfélagsins mun ávallt ráða för
varðandi hugsanlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga. Sveitarstjórn er reiðubúin til viðræðna við bæjarstjórn Akureyrar um mögulega
framkvæmd og gerð slíkrar könnunar.“
Eins og fram kom í síðasta blaði telur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hins vegar ekki tímabært að gera slíka könnun.