Reiðmaðurinn að hefjast með verklegri helgi

Um næstu helgi hefst Reiðmaðurinn þetta skólaárið, með verklegri helgi í Víðidal, á Akureyri og í Borgarnesi. Námið var fyrst í boði árið 2008 og hefur þróast jafnt og þétt með breyttum kennsluháttum og áherslum við þjálfun og útfærslu æfinga. Í vetur verða 90 nemar í náminu í sjö hópum þar af fara af stað tveir nýir á Hellu og í Víðidal. Hópar á öðru ári eru á Flúðum, Hafnarfirði, Borgarnesi, Akureyri og á Fljótsdalshéraði.  

Í upphafi hverrar annar koma kennarar og umsjónarmenn Reiðmannsins saman og fara yfir helstu áherslur í kennslu vetrarins. Reiðmaðurinn er nám ætlað fróðleiksfúsum hestamönnum og áhugafólki um reiðmennsku sem vill auka við þekkingu sína og færni í reiðmennsku, hrossarækt og almennu hestahaldi. Reiðmaðurinn er tveggja ára nám. Námskeiðið er byggt upp af námi í reiðmennsku og er megináherslan lögð á það en einnig er þetta almennt bóklegt nám um m.a. sögu og þróun hestsins, fóðrun hans og frjósemi og kynbætur. Námið er metið til samtals 33 framhaldsskólaeininga (ECVET) og lýkur námskeiðsröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Slík einingagjöf metur þá lágmarksvinnu sem ætlast er til að nemendur leggi fram og er háð því að nemendur hafi sótt 90% verklegra tíma í staðarnámi og standist námsmat. Að baki hverrar einingar er gert ráð fyrir þremur heilum vinnudögum nemandans, hvort sem um er að ræða verklega tíma eða heimanám. Mikil áhersla er lögð á markvissa heimavinnu á milli verklegra helga. Akureyrarhópurinn byrjar í verklegu námi um helgina í Top Reiter höllinni.

Nýjast