Regnbogasilungur til bjargar Mývatni

Einn reyndasti vatnafiskifræðingur landsins, Jón Kristjánsson, leggur til að regnbogasilungi verði sleppt í Mývatn. Hann segir það vera áhættulaust, sýnt hafi verið fram á það með rannsóknum í Skandinavíu að þetta sé besta leiðin til að kljást við þörungablóma. Þetta kom fram í fréttum stöðvar tvö.
Lengi hefur skolpi frá þorpinu í Mývatnssveit og áburðardreifingu bænda verið kennt um vanda Mývatns að hluta. Kröfur hafa orðið háværari um að ríkið fjármagni mörghundruð milljóna króna framkvæmdir við nýja fráveitu.
Jón segir slíkar aðgerðir muni engu breyta þar sem áburðaruppsöfnunin í vatninu sé langmest af náttúrunnar hendi og varar við því að menn blandi pólitík í umræðuna, eins og þegar Kísiliðjunni var kennt um þörungablómann í vatninu. Jón segir þörungablóma ekkert nýtt fyrirbrigði í Mývatni, hann hafi komið með reglulegu millibili í vatnið um áratugi og sennilega um aldir.
„Það er álitið að það sem komi frá manninum sé 1-2% af heildinni. Ef menn skrúfa fyrir það mun sennilega ekki gerast neitt,“ segir Jón í viðtali í fréttum Stöðvar 2. „Það hefur verið reynt erlendis að taka burt áburðinn og loka öllu skolpi og það hefur ekkert gerst.“
Í Evrópu segir hann það viðurkennda aðferð að sleppa regnbogasilungi til að vinna bug á vanda sem þessum. Regnbogasilungurinn éti hornsíli sem lifa m.a. á krabbaflóm sem eru nauðsynlegar til að halda þörungum í skefjum. Með auknu jafnvægi á milli tegunda ætti vatnið að haldast tært. /epe