Akureyri - Mjög góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum
Fjölmenni safnaðist saman á Akureyri fyrr í dag í góðu veðri til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð, þar sem Ína Sif Stefánsdóttir, starfsmaður Einingar-Iðju, flutti ávarp.
Yfirskrift þessa baráttudags okkar að þessu sinni eru „Við sköpum verðmætin .”
Gengið var frá Alþýðuhúsinu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins.
Fundarstjóri var Eyrún Huld Haraldsdóttir, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri. Bethsaida Rún Arnarson, trúnaðarmaður til margra ára, varaformaður Matvæla- og þjónustudeildar og stjórnarkona í Einingu-Iðju, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna sem má finna í heild neðst í fréttini og Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, flutti hátíðarræðuna að þess sinni. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði. Félagar í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri mættu á svæðið og sýndi atriði úr Galdrakarlinum í OZ sem þau settu nýlega á svið. Karlakór Akureyrar Geysir söng tvö lög og leiddi einnig samsöng í lokin, en gestir enduðu á að syngja Maístjörnuna.
Að dagskrá lokinni var gestum boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð, pylsur og safa, auk þess sem börnin gátu fengið andlitsmálningu. Það má með sanni segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður í alla staði og þökkum við öllum þeim sem komu og fögnuðu með okkur.
Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2025
Fundarstjóri, félagar – aðrir góðir gestir.
Mér er það mikill heiður að standa hér í dag og ávarpa ykkur.
Þann 12. janúar 1993 – fyrir rúmum þrjátíu og tveimur árum – flaug ég í lítilli flugvél frá Keflavík til Akureyrar, nýkomin til landsins frá heimalandi mínu, Filippseyjum.
Ég steig út úr vélinni á Akureyrarflugvelli – og rann beint á rassinn. Það var snjór og hálka og ég hafði aldrei á ævi minni séð snjó. Þar að auki var ég í skóm sem eru alls ekki hannaðir fyrir snjó.
Einhver góður maður hjálpaði mér að standa á fætur og studdi mig alla leið inn í flugstöðina.
Og hér stend ég öllum þessum árum síðar. Ég hef unnið hjá ÚA í þrjátíu og tvö ár – með tveggja ára hléi – en þá vann ég sem starfsstúlka á SAk.
Ég áttaði mig snemma á því að tungumálið er lykillinn að samfélaginu. Ég hef frá fyrsta degi lagt
mig fram um að læra tungumálið og vil segja við ykkur, sem innfædd eruð, að þið eruð mörg allt of fljót á ykkur að skipta yfir í ensku við okkur sem erum aðflutt.
TÖLUM ÍSLENSKU, gott fólk! Tölum bara aðeins hægar og endurtökum það sem þarf að endurtaka.
Ég hvet alla sem flytja hingað til að fara á íslenskunámskeið. Það er frábær leið til að læra tungumálið og kynnast um leið öðrum sem eru í sömu sporum og maður sjálfur. Tungumálið er vissulega lykillinn að SVO mörgu.
Ég hef verið trúnaðarmaður í ÚA í nokkur ár og er núverandi varaformaður Matvæla- og þjónustudeildar Einingar-Iðju. Í gegnum félagsstarfið hef ég meðal annars setið stjórnendaráðstefnu Starfsgreina-sambandsins, ASÍ-þing og kvennaráðstefnu.
Sú reynsla er ómetanleg.
Ég vil hvetja konur og karla af erlendum uppruna til að taka virkan þátt í félagsstarfinu, sækja fundi og fylgjast með því sem er að gerast. Tökum líka virkan þátt í því sem er að gerast í samfélaginu öllu. Þannig aðlögumst við best og verðum hluti af hópnum.
Við þurfum öll að kunna að lesa launaseðilinn okkar og þekkja réttindi okkar. Verum dugleg að fara inn á heimsíðu stéttarfélagsins okkar og lesa skilaboðin sem þar eru. Þau eru á mörgum tungumálum og þau eru mjög mikilvæg.
Kynþáttafordómar eru vaxandi vandamál í heiminum. Ég hef fundið fyrir þeim alla tíð, enda verða rasistar sennilega alltaf hluti af tilveru okkar.
Við þurfum öll að vera vakandi gagnvart slíkum fordómum og vinna gegn þeim með öllum ráðum.
Góðir gestir.
Ég sagði ykkur í upphafi ræðu minnar hvernig ég rann á rassinn á Akureyrarflugvelli um árið. Löngu seinna lærði ég málsháttinn: Fall er fararheill.
Hann þýðir að það að detta í byrjun ferðar sé til marks um að ferðin verði góð. Það hefur heldur betur sannast á mér.
Hér á Akureyri kynntist ég manninum mínum. Við höfum verið gift í meira en þrjátíu ár og eigum yndislega fjölskyldu.
Hér búa líka systur mínar, bróðir minn, frænka mín og maðurinn hennar en þau hjálpuðu mér til að komast til Íslands fyrir öllum þessum árum.
Ég elska Ísland og vil hvergi annars staðar búa.
Ég elska hreina loftið og vatnið.
Ég elska náttúruna og ég elska öryggið.
Hér er frábært að eiga heima. Hér er frábært að starfa. Ég hvet alla í verkalýðshreyfingunni til að taka virkan þátt í félagsstarfinu – hvað svo sem félagið heitir.
Við getum verið stolt af félaginu okkar og þurfum að gera allt sem við getum til að það eflist og dafni.
Kæru félagsmenn.
Til hamingju með daginn!
Til hamingju með okkur!
Frá þessu segir á heimasíðu Einingar Iðju.