Þrjú verkefni í Þingeyjarsveit hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Hanna Katrín Friðriksdóttir atvinnuvegaráðherra úthlutaði styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 30 april s.l.
Þingeyjarsveit sótti um styrk fyrir þrjú verkefni uppá 42 milljónir og fékk úthlutað í þau öll frá framkvæmdasjóðnum.
Aðspurður segir Ingimar Ingimarsson sviðsstjóri umhverfis-og framkvæmdasviðs vera himinlifandi með úthlutunina enda hafi umsóknirnar að þessu sinni verið mjög sterkar.
Eftirtalin verkefni í Þingeyjarsveit fengu styrk:
Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss
Kr. 13.600.000,- styrkurinn felst í gerð göngustíga og bílaplans við Aldeyjarfoss.
Markmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að Aldeyjarfossi og Hrafnabjargafossi. Verkefnið er hluti af áfangastaðaáætlun Norðurlands og fellur að markmiðum sjóðsins um bætt aðgengi. Einnig fellur verkefnið að áherslum ráðherra á minna sótt svæði.
Göngu- og hjólreiðarstígur umhverfis Mývatn – brúargerð.
Kr. 13.600.000,- styrkur í samræmda hönnun og byggingu þriggja brúa á göngu- og hjólreiðastígnum umhverfis Mývatn.
Markmið verkefnisins er að auka öryggi ferðamanna, vernda náttúru og bjóða upp án möguleika á einstakri upplifun á einum þekktasta ferðamannastað landsins. Síðan árið 2020 hefur verið unnið að lagningu göngu- og hjólreiðstígs umhverfis Mývatn, sem verður um 45 kílómetra langur þegar verkinu lýkur. Stígurinn er mikilvægur hvað náttúrvernd varðar, þar sem hann kemur í veg fyrir myndun hentistíga, niðurtroðning á graslendi og jarðvegsrof. Stígurinn eykur öryggi ferðamanna, þar sem umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er illmöguleg á þjóðveginum umhverfis vatnið. Mývatn er hluti af áfangastaðaáætlun Norðurlands. Verkefnið fellur vel að markmiðum sjóðsins um öryggi ferðamanna, náttúruvernd og lengingu ferðamanna tímabilsins.
Þeistarreykir – verndun hverasvæðis og bætt aðgengi.
Kr. 15.000.000,- styrkurinn felst í hönnun á göngustígum í kringum hverasvæðið frá Þeistareykjaskála og kringum helstu hveri þar við. Hafin verður uppbygging á svæðinu sem byrjar á bílaplani og göngustígum kringum hverina.
Markmið verkefnisins er verndun hverasvæðisins við Þeistareyki, öryggi og bætt aðgengi. Verkefnið er hluti af áfangastaðaáætlun Norðurlands og fellur að markmiðum sjóðsins um bætt aðgengi, öryggi og vernd viðkvæmrar náttúru og jarðmyndanna.
Frá þessu segir á heimasíðu Þingeyjarsveitar