Stöður skólameistara við VMA og Framhaldsskólans á Húsavík auglýstar
Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsti í dag lausar til umsóknar stöður skólameistara við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) og Framhaldsskólann á Húsavík. Umsóknarfrestur er til og með 14. maí n.k.
Stöðurnar eru veittar til fimm ára í senn og er auglýst eftir metnaðarfullum og leiðtöguhæfum einstaklingum til að stýra starfsemi skólanna.
Verkmenntaskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1984 og er fjölbreyttur áfangaskóli sem býður upp á nám í iðn- og tæknigreinum auk bóknáms til stúdentsprófs á stúdentsprófsbrautum.
Þá er einnig boðið upp á starfsbraut, almenna braut og Íslenskubrú fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Skólinn rekur kvöldskóla og býður auk þess upp á lotunám og fjarnám í ýmsum greinum.
Um 150 starfsmenn starfa við VMA og nemendur skólans eru tæplega 1.200.
Framhaldsskólinn á Húsavík var stofnaður árið 1987 og er bóknámsskóli sem starfar eftir áfangakerfi. Skólinn býður nám til stúdentsprófs á stúdentsprófsbrautum, sem og nám á starfsbraut og almennri braut.
Þá er allt nám á stúdentsprófsbrautum einnig í boði í fjarnámi.
Starfsmenn skólans eru 16 og nemendur eru u.þ.b 120.