Hljómsveitin Klaufar spilar á Norðurlandi

Hljómsveitin Klaufar sem spilar vandað kántrýpopp heldur í Norðurlands-túr 1. til 3. maí. Hljómsveitin spilar í fyrsta skipti á þeim magnaða tónleikastað Græna hattinum á Akureyri föstudaginn 2. maí.
„Haukur Tryggvason og hans góða fólk á Græna hattinum á heiður skilinn fyrir sitt öfluga starf sem þau hafa haldið út svo lengi og þar með auðgað menningar- og tónlistarlíf Akureyringa,“ segir Friðrik Sturluson einn Klaufanna. Og loks, á laugardeginum 3. maí spila Klaufarnir í júróvisjon- og hvalaskoðunarbænum Húsavík 3. maí, á Gamla Bauk.
„Þessir staðir eiga sérstakan stað í hjarta okkar, margar góðar minningar tengdar miðnætursólinni á Akureyri og fyrir norðan, mörg ógleymanleg böllin sem voru spiluð þar í „gamla daga“. Við félagarnir höfum alltaf fengið góðar móttökur fyrir norðan og veðrið virðist í ofanálag alltaf vera gott og stemmingin eftir því.“
Kántrýskotið popp
Hljómsveitin Klaufar var stofnuð árið 2006, og spilar kántrýskotið popp, í byrjun mest þekkt ábreiðulög, en nú síðustu árin einnig frumsamin lög. Í hljómsveitinni eru þeir Birgir Nielsen trommari, mörgum kunnur sem meðlimur hljómsveitanna Vinir vors og blóma og Lands og sona, Guðmundur Annas Árnason, söngvari og gítarleikari, úr hljómsveitinni Soma sem átti smellinn "Grandi Vogar" og er nú líka í hljómsveitinni Fjöll, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og stálgítarleikari, margreyndur í bransanum með hljómsveitum á borð við Start og Gildruna. Sagt er að Sigurgeir sé einn fremsti stál-gítarleikari Evrópu og þó víðar væri leitað. Friðrik Sturluson bassaleikari gekk síðan til liðs við hljómsveitina árið 2011, en hann er kannski þekktastur fyrir að vera bassaleikari hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns og sú hljómsveit kom reglulega til Akureyrar á blómatíma sínum.
Frumsamin tónlist með vönduðum textum
Klaufar hafa gefið út þrjár hljómplötur eða geisladiska, „Síðasti mjói kaninn“, „Hamingjan er björt“ og „Óbyggðir“. Af þessum plötum náðu vinsældum lögin Búkalú, Annar maður, Lífið er ferlega flókið, Ást og áfengi og fleiri.
Á seinni árum hafa Klaufar færst meira yfir í að spila frumsamda tónlist með vönduðum textum. Þeir hafa m.a. sent frá sér lögin Þessi eina sanna, Ef allt gengur að óskum og nú síðast ballöðuna Fólk. „Við hlökkum mikið til að koma norður og lofum góðri stemningu.“ segir Friðrik.