Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein þar sem mér var tíðrætt um laun mín í sumarvinnu í leikskóla miðað við laun sonar míns sem í sinni sumarvinnu sló gras í kirkjugörðum okkar Akureyringa. Þá var munurinn 15.000 krónur mér í vil og ástæðan var aðallega sú að ég hafði verið heimvinnandi, var með stúdentspróf og búin með eitt ár í leikskólakennaranámi. Árið 2008 kláraði ég námið. Sökum aldurs og fyrri reynslu fór ég strax í hæsta þrep í launatöflunni öfugt við unga fólkið sem útskrifaðist með mér. Að ári liðnu hækkaði ég um launaflokk og að auki fékk ég, eins og annað launafólk, rúmlega 20.000 króna launahækkun með stöðugleikasáttmálanum. Laun mín í dag eru tæplega 269.000 kr. á mánuði. Þriggja ára háskólanám og rúmlega tuttugu ára reynsla við uppeldi og störf með börnum er metið á þessa upphæð.
Nú hefur kjarasamningur Félags leikskólakennara verið laus síðan í haust og ekkert gengur að ná sátt við sveitarfélögin sem bera við peningaleysi sökum kreppu. Þau hafa sparað með því að skera niður yfirvinnu og nú er svo komið að flestir leikskólakennarar þessa lands eru á berstrýpuðum taxtanum sem vel að merkja eru lágmarkslaun en fæst sveitarfélaganna telja sér fært að borga krónu hærra fyrir allt það frábæra fólk sem í leikskólunum kennir. Í raun fór það eins og ég óttaðist að þegar fengin var heimild til að samkeyra grunn- og leikskóla sem vel að merkja var gerð til að koma á móts við fámenn sveitarfélög, færu stóru sveitarfélögin að beita þessari heimild í sparnaðarskyni en ekki eins og tilgangurinn var, að greiða fyrir góðu skólastarfi.
Leikskólakennarar eru vel menntaðir og háskólagengnir. Leikskólakennarar leggja sig fram um að hlúa að æsku þessa lands, fræða og annast um hana. Leikskólakennarar eru með börnunum megnið af sínum vinnutíma meðal annars borða þeir alltaf með börnunum. Leikskólakennarar eru staðgenglar foreldra þeirra á meðan á skóladvölinni stendur. Leikskólakennarinn er sá sem mest áhrif hefur á þroska barnsins þegar foreldrunum sleppir fyrstu árin í lífi þess. Í stöður þeirra viljum við úrvalsfólk. Slíku fólki þarf að greiða mannsæmandi laun og gott betur en það.
Að lokum vil ég segja ykkur að sonur minn útskrifaðist sem iðnaðarmaður árið 2008 eins og ég. Hann er nú með rúmlega 60.000 krónum hærra kaup en ég á mánuði í fastakaup en að auki er hann yfirleitt með a.m.k. 20 tíma í yfirvinnu ofan á það. Hans vinnuveitandi telur hann vel þess virði.
Höfundur er leikskólakennari á fimmtugsaldri og í stjórn Félags leikskólakennara.