Rannsóknarstöð um norðurljós vígð í Þingeyjarsveit í dag
Kínversk-íslenska rannsóknarstöðin um norðurljós (CIAO) verður formlega vígð að Kárhóli í Þingeyjarsveit seinnipartinn í dag. Kínverska sendinefndin átti fund með bæjarstjóra, hafnarmálastjóra, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Akureyrar og fleiri aðilum um samstarf Íslands og Kína á norðurslóðum í morgun. Það sem meðal annars var rætt á fundinum var vísindasamstarf og hafnartengd starfsemi.
Í kínversku sendinefndinni eru m.a. vararáðherra Hafmálastofnunar Kína (SOA), forstöðumaður Heimskautastofnunar Kína (PRIC) og varaforseti Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC).
Hafmálastofnun Kína fer með málefni hafsins í Kína (að fiskveiðum undanskildum) og er það ráðuneyti, ásamt kínverska utanríkisráðuneytinu, sem mótar norðurslóðastefnu Kína. Þegar forsætisráðherra Kína kom í opinbera heimsókn til Íslands í april 2012 gerðu utanríkisráðuneyti Íslands og Hafmálastofnun Kína með sér rammasamning um samstarf á norðurslóðum en það er eini slíki samningurinn sem kínversk stjórnvöld hafa gert, og samhliða var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf á sviði hafmála og heimskautavísinda og -tækni.