Rannsókn á viðhorfum til mála sem tengjast sveitarstjórnarstiginu

Samningur milli innanríkisráðuneytisins, (nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins) og Háskólans á Akureyri, var undirritaður um helgina að Borgum. Það voru þeir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Grétar Þór Eyþórsson prófessor við HA sem undirrituðu samninginn. Um er að ræða rannsókn á viðhorfum sveitarstjórnarmanna, bæjar- og sveitarstjóra og alþingismanna til ýmissa mála sem tengjast sveitarstjórnarstiginu.
Einnig voru viðstaddir undirritunina þeir Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi og formaður nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og Stefán B. Sigurðsson rektor HA. Grétar Þór er verkefnisstjóri og hann segir að gerð verði könnun meðal þessara hópa og spurt um eflingu sveitarfélaga, flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, samvinnu og sameiningarmál, íbúalýðræði og stjórnun sveitarfélaga eftir efnahagshrunið. Könnunin er vefkönnun og verður í framkvæmd fram í nóvember. Niðurstöður liggja fyrir í desemberlok og verða þær m.a. kynntar á málþingi sem samningsaðilar halda og verður í HA seinni hluta janúar næstkomandi.