Rammagerðin opnar verslun á Akureyri

Lovísa Óladóttir framkvæmdastjóri og Halla Sigbjörnsdóttir verslunarstjóri.
Lovísa Óladóttir framkvæmdastjóri og Halla Sigbjörnsdóttir verslunarstjóri.

Gjafavöruverslunin Rammagerðin opnaði í dag, 23. febrúar, nýja verslun á Akureyri. Verslunin er í hinu fallega, endurgerða húsi Hamborg að Hafnarstræti 94 á Akureyri. ,,Við erum mjög ánægð að opna verslun í þessu gamla og sögufræga húsi sem auk þess er á besta stað á Akureyri. Við munum bjóða upp á úrval af ullarvörum og fatnað frá 66°NORÐUR sem og gjafavörur með áherslu á íslenskt handverk,“ segir Lovísa Óladóttir, framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar.

Lovísa segir að markmiðið með opnun nýju verslunarinnar sé að sinna betur Norðurlandi. ,,Við erum að að auka þjónustustigið hér auk þess sem við viljum vera í meiri nálægð við markaðinn á Norðurlandi og okkar viðskiptavini þar,“ segir hún. Þetta er fjórða verslun Rammagerðarinnar en fyrir eru verslanir í Reykjavík, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á Egilsstöðum. ,,Markmiðið er að gera Rammagerðina að leiðandi verslunum með íslenskt handverk og leggja einnig áherslu á handverk úr héraði. Hugmyndafræðin að baki verslunarkeðjunni er ferskleiki og nútímaleg gjafavöruverslun sem byggir á gömlum grunni og gömlum gildum,“ segir Lovísa. Verslunarstjóri Rammagerðarinnar á Akureyri er Halla Sigbjörnsdóttir.

 

 

Nýjast