Rakel með tvennu í sigri Þórs/KA
Rakel Hönnudóttir skoraði tvívegis fyrir Þór/KA er norðanliðið kom sér aftur á sigurbraut með 3:1 sigri gegn Aftureldingu
á Þórsvelli í kvöld í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Afturelding hafði 1:0 forystu í hálfleik með marki frá
Kristrúnu Höllu Gylfadóttir, þvert gegn gangi leiksins. Rakel jafnaði metin á 60. mínútu og kom Þór/KA yfir korteri síðar.
Það var svo Mateja Zver sem innsiglaði 3:1 sigur heimamanna með marki á uppbótartíma.
Sigurinn kærkominn fyrir Þór/KA og stigin þrjú afar dýrmæt. Með sigrinum er Þór/KA komið með níu stig í fjórða sæti deildarinnar en Afturelding er í níunda og næstneðsta sæti með fjögur stig. Þá kom Stjarnan sér í toppsætið með 2:1 sigri gegn ÍBV á Stjörnuvelli.
Staðan gæti breyst í kvöld þegar sjötta umferðin klárast, en nú standa yfir þrír leikir.