Rakel Hönnudóttir Íþróttamaður Þórs

Íþróttafélagið Þór stóð fyrir opnu húsi í félagsheimili sínu í Hamri í dag og var það vel sótt af félagsmönnum. Á opnu húsi bar hæst kjör íþróttamanns Þórs 2008 og varð þar fyrir valinu landsliðskonan í knattspyrnu Rakel Hönnudóttir.

Í ræðu Sigfúsar Helgasonar, formanns Þórs sagði hann Rakel einkar vel að titlinum komna enda hafi hún staðið sig með afbrigðum vel með liðinu sínu og landsliðinu í sumar. Hápunkturinn á sumrinu hjá henni var svo þegar hún komst á lokakeppni EM í Finnlandi á næsta ári með landsliðinu og þegar hún hreppti silfurskó KSÍ fyrir að vera næst markahæsti leikmaður Íslandsmótsins.

Á opnu húsi voru einnig veitt heiðursmerki félagsins og hlutu þeir Páll Viðar Gíslason, Skapti Hallgrímsson og Rúnar Steingrímsson gullmerki félagsins fyrir vel unnin störf.

Dagný Linda Kristjánsdóttir afreksskona á skíðum hélt ræðu fyrir viðstadda ásamt því að Íþróttafélagið Þór heiðraði landsliðsmenn sína á árinu og minntist látinna félaga.

Opna húsið hjá Þór var að vanda vel heppnað og öll umgjörð til fyrirmyndar og sóma.

Nýjast