Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 13 ára Akureyringur sem gengur undir listamannsnafninu Ragga Rix, sigraði Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins sem var haldin um síðustu helgi. Ragga keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Tróju á Akureyri og flutti lagið Mætt til leiks. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Rímnaflæði var fyrst haldið 1999 en þessi skemmtilega keppni hefur verið stökkpallur ungra og efnilegra rappara úr félagsmiðstöðvum landsins til að skapa sér nafn í tónlistarheiminum. Keppendur eru á aldrinum 13-16 ára og er skilyrði að textar séu samdir af keppendum.
Þónokkur ár eru síðan Akureyrarbær átti síðast fulltrúa í Rímnaflæði og þar af leiðandi var mikil eftirvænting í félagsmiðstöðvunum. Úrslitin eru sérlega ánægjuleg og óskum við Röggu Rix til hamingju með sigurinn.