Neyslumynstur almennings hefur breyst í kjölfar upplýsingatæknibyltingarinnar sem nú vex og dafnar. Tölvupóstsamskipti eru á undanhaldi og samskiptaleiðir hafa færst í auknum mæli á samfélagsmiðla, ekki síst í gegnum snjallsíma. Í kjölfar byltingarinnar aukast kröfur til stofnana og fyrirtækja um að fylgja þessari þróun og er mikilvægt að Akureyrarbær dragist ekki aftur úr í upplýsingatækni sem auðveldar boðleiðir á milli bæjarbúa og starfsfólks. Fjölmörg tækifæri eru í boði og þau þarf Akureyri að nýta sér. Í dag get ég pantað mér pizzu með nokkrum smellum á snjallsímann minn en ég þarf ennþá að skila útprentaðri umsókn um húsaleigubætur.
Rafræn þjónusta er það sem koma skal. Dæmi um aukna rafræna þjónustu sem Akureyrarbær getur veitt er: aðgengilegra form til að koma á framfæri ábendingum um eitthvað sem betur mætti fara, til dæmis illa farinn leikvöll eða rusl sem þyrfti að hirða, og aðgengilegri leiðir til að sækja um húsaleigubætur. Bæjarbúar munu í auknum mæli krefjast þess að geta sinnt sínum málum ótengt stað og stund í gegnum netið.
Aukin rafræn þjónusta felst ekki síst í auknu gegnsæi. Rafrænn samskiptavettvangur, til að mynda í gegnum samfélagsvefinn Facebook sem 80% Íslendinga á öllum aldri er skráður á, er dæmi um vannýtt tækifæri hjá Akureyrarbæ. Fjöldamargir aðilar hafa sýnt að Facebook getur reynst gagnleg til að miðla upplýsingum til fólks, til að mynda hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórn Akureyrar ætti að stofna síðu á Facebook til að leyfa almenningi að fylgjast með störfum hennar á þægilegan máta.
Flestar stofnanir Akureyrarbæjar geta bætt rafræna þjónustu og þannig aukið þægindi og sparað pappír (sem er umhverfisvænt) og ýmsan umsýslukostnað. Það er hlutverk komandi bæjarstjórnar að hugsa um hag bæjarbúa á rafrænum vettvangi. Það er eitt skrefið í því, að gera góðan bæ betri.
Siguróli Magni Sigurðarson.
Siguróli Magni skipar 3. sæti lista Framsóknarflokksins á Akureyri í komandi sveitastjórnarkosningum.