Rafn fagnar 70 ára afmæli og 50 ára spilaafmæli

Rafn Sveinsson með eintök af nýja hljómdisknum sínum.
Rafn Sveinsson með eintök af nýja hljómdisknum sínum.

Tónlistarmaðurinn Rafn Sveinsson hefur verið fyrirferðarmikill í tónlistarlífinu á Akureyri undanfarna áratugi. Rafn sem er trommuleikari, hefur leikið með ýmsum hljómsveitum og einnig verið með sínar eigin hljómsveitir í gegnum tíðina. Rafn hefur nú sent frá sér nýjan 12 laga hljómdisk og er hann gefinn út af tvennu tilefni.

Annars vegar fagnaði hann 70 ára afmæli sínu, þann 3. október sl. og hins vegar 50 ára spilaafmæli. Það var í október árið 1961 sem Hljómsveit Birgis Marinóssonar var stofnuð á Akureyri. Auk Rafns og Birgis voru í hljómsveitinni þeir Pálmi Stefánsson og Gunnar Tryggvason.

Nýi diskurinn ber heitið; Rabbi Sveins 70 ára, lögin eru flest skandinavísk, sem Rafn hefur íslenskað textana við. Rafn syngur öll lögin en allur undirleikur er í höndum þeirra Brynleifs Hallssonar og Gunnars Tryggvasonar og sáu þeir einnig um upptöku og hljóðblöndun. Einnig fékk Rafn til liðs við fiðluleikarann Ástu Óskarsdóttur í tveimur lögum. Óskar Pétursson syngur með Rafni í einu lagi og Helena Eyjólfsdóttir syngur með honum í nýju lagi eftir Gunnar Tryggvason.

Viðburðirnir yfir 2000 talsins

Rafn segist hafa verið að spila stanslaust frá árinu 1961, með alls konar hljómsveitum, stórum og smáum og með fullt af frábæru fólki. Hann segist hafa tekið niður punkta eftir nánast hvern viðburð, sem eru orðnir yfir 2000 talsins á þessum fimm áratugum. "Ég hélt að ég yrði hættur að spila fyrir löngu en það er alltaf eitthvað að koma upp og þetta hefur verið eintóm ánægja. Nú síðast voru það minningartónleikarnir um Óðinn Valdimarsson, sem slógu í gegn bæði á Akureyri og á Egilsstöðum. Við fylltum Græna hattinn fimm sinnum og húsfyllir var á minningartónleikunum á Egilsstöðum líka. Seinni partinn í október förum við suður eina helgi með minningartónleikana," segir Rafn en Óðinn var með honum í hljómsveit um tíma.

Það var svo ekki fyrr en á síðasta ári að Rafn fór að læra á hljóðfæri og var það að frumkvæði konu hans. Hann fór í nám í Tónræktinni og spilar nú sér til ánægju á hljómborð heima hjá sér. Sem fyrr segir á Rafn alla textana á nýja diskinum en hann hefur samið mikið af textum í gegnum tíðina, sem ýmsir söngvarar hafa svo sungið. Lagið Æskuást, sem Erla Stefánsdóttir söng í kringum 1960, var eitt allra vinsælasta lagið hér á landi á þeim tíma en Rafn gerði einmitt textann við það lag.

Spilað með mörgum

Rafn hefur spilað með flestum hljóðfæraleikurum bæjarins í gegnum tíðina og má þar nefna Ingimar Eydal og Örvar Kristjánsson og einnig söngkonuna Erlu Stefánsdóttur. Lengst af var hann þó með gítarleikarnum Grétari Ingvarssyni. Rafn átti á sínum tíma segulband, sem hann lét stundum ganga þegar hann var að spila með félögum sínum á böllum. Hann segir að það sé virkilega gaman að hlusta á þessar upptökur í dag. Rafn hefur m.a. leikið með félögum sínum á þorrablóti í Luxemborg og þá lék hljómsveitin Laxar á 10 böllum í Færeyjum fyrir margt löngu. Rafn sagði að hljómsveitinni hefði verið vel tekið í Færeyjum og fullt út úr dyrum á öllum böllunum. Þá hefur hann leikið á böllum víða um land, mest þó á Norður- og Austurlandi.

"Við áttum gott samstarf við Tryggva Helgason flugmann og hann flug með okkur á ýmsa staði, m.a. á Austurlandi og til Siglufjarðar. Við fórum þó flestar okkar ferðir á sendibílum og komum á þessum árum á marga og mjög misjafna staði. Það kom fyrir að hljómsveitarmeðlimir sváfu í svefnpokum á sviðinu eftir að dansleik lauk."

Á þessum tímamótum er Rafni efst í huga þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem hann hefur átt samleið með á þessum 50 árum í bransanum.


Athugasemdir

Nýjast