RÁÐSTEFNAN SNJALLARI SAMAN HEPPNAÐIST VEL

Rúmlega 200 manns mættu í Háskólann á Akureyri á ráðstefnuna Snjallari saman – upplýsingatækni og mi…
Rúmlega 200 manns mættu í Háskólann á Akureyri á ráðstefnuna Snjallari saman – upplýsingatækni og miðlun í skólastarfi. Mynd:unak.is

Ráðstefnan Snjallari saman – upplýsingatækni og miðlun í skólastarfi sem haldin var á vegum miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) heppnaðist í alla stað vel, samkvæmt fréttatilkynningu á vef Háskólans á Akureyri. Rúmlega 200 þátttakendur áttu þar saman lærdómsríkan dag í blíðskapar veðri.

Rektor Háskólans á Akureyri, dr. Eyjólfur Guðmundsson, setti ráðstefnuna og bað ráðstefnugesti ætíð að hafa í huga að tala vel um kennarastarfið sem væri með þeim ábyrgðarmeiri í samfélaginu. Hann vísaði til blaðagreinar frá upphafi árs sem hafði vakið hann til umhugsunar um mikilvægi orðræðunnar og þess að hún sé jákvæð í það minnsta frá okkur kennurum sjálfum. Einnig fékk rektor salinn til að taka upp snjalltækin og hefja tíst um efni ráðstefnunnar og má sjá afrakstur tísta dagsins í Storify formi á vefsíðu MSHASnjallari saman

Fyrsta aðalerindi var í höndum Kjartans Ólafsonar sem hefur til margra ára rannsakað og skrifað um netnotkun ungmenna, hans erindi „Undir oki upplýsinga(r)“ beindi sjónum ráðstefnugesta að boðum og bönnum í tengslum við netnotkun. Hann sagði m.a. netið vera upplýsingaveitu sem svipar til bókasafna og rétt eins og börnum og ungu fólki er kennt að nota bókasöfn þarf að kenna þeim að nota netið. Hann benti á að í gegnum söguna hafa nýir samskiptamátar valdið usla og áhyggjum þeirra fullorðnu en mikilvægara er að eiga samtal við unga fólkið, læra sjálfur á tæknina og nýta möguleika hennar.

Fyrsta málstofulota hófst að loknu kaffihléi og voru sjö málstofulotur í boði hver annarri áhugaverðari. Margrét Þóra Einarsdóttir og Helena Sigurðardóttir stigu á svið eftir matarhlé og kölluðu sitt erindi „Að nota rafræna kennsluhætti. Hversu snjallt er það?“. Með þeim voru fjórir nemendur sem veittu innsýn í hug nemenda þegar kemur að notkun rafrænna kennsluhátta. Margrét og Helena sýndi leikræn tilþrif meðal annars og má með sanni segja innlegg þeirra og nemendanna, Arndísar, Egils, Katrínar og Kristjáns hafi slegið í gegn.

Önnur málstofulota ekki síðri en hin fyrri rann í gegn og síðasta aðalerindið var í höndum Tryggva Thayer verkefnisstjóra Menntamiðju og framtíðarfræðingur. Nefni hann sitt erindi „Veldisvaxandi tæknibreytingar og þekkingarþarfir kennara: Hvað þurfa kennarar að kunna og hvernig læra þeir það?“ fór hann þar á áhugaverðan hátt yfir starfsþróunarþarfir kennara og kosti samfélagsmiðla í því sambandi ásamt umfjöllun um reynslu af Samspili 2015, UT-átaki Menntamiðju og UT-torgs. 

Ráðstefnugestir og ráðstefnuhaldarar voru upp til hópa afar ánægðir með daginn sem tókst með eindæmum vel. (unak.is) /epe.

Á vef MSHA má sjá fleiri myndir.

Nýjast