Ráðlegt að fólk sé gagnrýnið á vinabeiðnir
Ráðlegt er að fólk uppfæri friðhelgisstillingar sínar á Facebook þannig aðeins vinir vina geti sent vinabeiðnir. Þetta segir sérfræðingur í netöryggi, fólk er jafnframt hvatt til þess að vera gagnrýnið á þær vinabeiðnir sem því berist.
Notendur Facebook hafa margir hverjir fengið vinabeiðnir ókunnugu fólki undanfarið. Tölvuþrjótar standa að mörgum þessara grunsamlegu vinabeiðna, þeir hafa þá sett upp gerviprófíl, stolið íslenskum nöfnum og jafnvel myndum.
Theodór Gíslason, forstjóra netöryggisfyrirtækisins Syndis, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, að þetta væri ný gerð svika sem fylgi aukinni tækni. „Með aukinni tækniþekkingu þá eru fjársvik eða svik, hvernig svo sem þau eru, komin á þetta stig. Inn á heimili fólks í gegnum Facebook og aðra tölvuvædda miðla sem við notum dags daglega," segir hann og á von á því að svik sem þessi eigi eftir að færast í aukana.
Alls konar ástæður geta legið að baki falskra vinabeiðna en ofter en ekki er markmiðið fjársvik. Theodór mælir með að fólk sé gagnrýnið á vinabeiðnir sínar. „Kíkja á prófílinn hjá fólki sem vill vera vinur manns og kíkja hvort þessi aðili sé nýkominn á Facebook. Hvort hann sé meðlimur í brjálæðislega mörgum grúppum. Ef þú ert með gagnrýnið hugarfar í þessu sem og öðru sem þú lendir í á internetinu, þeim mun minni líkur eru á því að þú lendir í alvarlegu atviki,“ segir hann í Morgunútvarpi Rásar 2.