Hulda Sif Hermannsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra á Akureyri og leysir hún af hólmi Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur sem tekur við starfi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.
Hulda Sif hefur starfað á Akureyrarstofu sem verkefnastjóri viðburða- og menningarmála frá árinu 2007. Hún er með BA próf í þýsku og nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun.
Snertifletir Huldu Sifjar á Akureyrarstofu hafa verið auk menningarmála og viðburðastjórnunar, mál tengd ferðaþjónustu og markaðs- og kynningarmálum. Hulda Sif starfaði áður hjá RÚV við dagskrárgerð og fréttamennsku.