Ráðherra kallar eftir skýrari verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu á ársfundi SAk

Skýrari verkaskipting í heilbrigðiskerfinu og aukin samvinna og samráð milli stofnana eru mikilvægir liðir í því að bæta heilbrigðisþjónustuna. Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson talaði m.a. um mikilvægi skýrari verkaskiptingar í heilbrigðiskerfinu og að aukin samvinna og samráð milli stofnana eru mikilvægir liðir í því að bæta heilbrigðisþjónustuna. Þetta kom fram þegar hann ávarpaði ársfund Sjúkrahússins á Akureyri sem haldinn var á miðvikudag.
Yfirskrift fundarins var „Tækifæri til betri heilbrigðisþjónustu“. Ráðherra sagði það falla vel að þeim áherslum sem hann hefði lagt með þeim verkefnum sem hann hefði sett á oddinn síðustu ár. Í því sambandi nefndi hann m.a. vinnu við samtengda rafræna sjúkraskrá, breytt fyrirkomulag fjármögnunar í heilsugæslunni, nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisjónustu sem setur þak á hámarksútgjöld sjúklinga o.fl.
Ráðherra kom einnig inn á þau tækifæri sem felast í nýjustu tækni á sviði fjarlækninga við veitingu heilbrigðisþjónustu í ræðu sinni: „Fyrr í dag tók ég við skýrslu starfshóps sem ég fól að móta stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu undir styrkri forystu Dr. Eyjólfs Guðmundssonar. Ég hlakka til að kynna mér í þaula tillögur hópsins og er sannfærður um að þær munu gefa okkur tækifæri til að efla til muna heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ekki síst í hinum dreifðari byggðum.“
Sjúkrahúsið á Akureyri veitir árlega á ársfundum sínum sérstök hvatningarverðlaun. Að þessu sinni hlutu verðlaunin þverfaglegur samstarfshópur, sem vinnur að átaksverkefni um styttingu biðlista vegna sjúklinga sem bíða eftir gerviliðaaðgerðum og augasteinsaðgerðum. Átaksverkefnið er unnið í samkvæmt samningi sem ráðuneytið gerði við Sjúkrahúsið á Akureyri og fleiri stofnanir fyrir skömmu. Á meðfylgjandi mynd má sjá ráðherra með handhöfum hvatningarverðlaunanna. /epe