Þegar rétt þrír mánuðir eru þar til Íslandsmótið í knattspyrnu hefst, er enn mikil óvissa um ástand bæði Akureyrarvallar og Þórsvallar fyrir sumarið. Enn er bið í að sæti verði sett í stúkuna við Akureyrarvöll en það er skilyrði að hálfu KSÍ svo KA geti leikið heimaleiki sína þar í sumar. Málið strandar á fjármagni til verksins. Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir að sambandið sé reiðubúið með fimm milljóna króna styrk til verkefnisins svo KA geti klárað framkvæmdir við stúkuna og völlurinn verði löglegur í sumar. Skilyrði fyrir útgreiðslu styrksins sé að mannvirkið uppfylli skilyrði leyfiskerfis KSÍ fyrir félög í 1. deild karla. Þar vegur þyngst krafan um 300 aðskilin sæti, eins og áður hefur verið greint frá. Þá segir Þórir ennfremur að hann hafi ítrekað komið því á framfæri við Akureyrarbæ að þessir fjármunir verði greiddir út til KA um leið og fyrir liggur staðfesting á því að sætin verði sett upp.
Oddur Helgi Halldórsson, formaður bæjarráðs, segist í samtali við Vikudag, ekki kannast við þetta. Hann er svekktur út í forsvarsmenn KSÍ varðandi aðkomu að málinu og að lítið sé að marka hvað þeir segja. Aðspurður um hvernig málin standa í dag og hvort til standi að fara í nauðsynlegar framkvæmdir fyrir tilsettan tíma segir Oddur: Ætli við reddum þessu ekki og kaupum sætin og setjum þau upp. Ég reikna með að það verði gert. Það er engin lausn komin ennþá en hún verður fundin. Að öðrum kosti þarf KA að finna sér nýjan heimavöll.
Lagfæringar á Þórsvelli
Um vandamálið á Þórsvelli, þar sem umtalsverðar skemmdir hafa orðið á stúkunni vegna vatnsleka og ekkert lát virðist á, segir Oddur að verið sé að vinna í því að ná samkomulagi við verktaka og hönnuði sem komu að mannvirkinu um kostnað við lagfæringar. Reiknað sé með að ráðist verði í viðgerðir á stúkunni öðru hvoru megin við sumarið en Oddur leggur áherslu á að ef farið verði í framkvæmdir í vor komi það ekki í veg fyrir að hægt verði að spila á vellinum. Ekki standi til að innsigla völlinn og hann þar af leiðandi óleikfær, en sú saga hefur gengið fjöllum hærra. Ef farið verður í lagfæringar í sumar væri hægt að nota búningsklefana í Hamri og ég reikna með að áhorfendur geti setið í stúkunni, segir Oddur.
Sigfús Ólafur Helgason, formaður Þórs og forstöðumaður á Þórsvelli, furðar sig á seinagangi Akureyrarbæjar á málinu. Stúkan míglekur enn og þetta heldur áfram að skemmast dag frá degi, á meðan það er hláka. Staðan er slæm og það er með hreinum ólíkindum hvað menn eru rólegir með þetta dýra mannvirki, segir Sigfús