Ráðast á í endurbætur á Hlíð á næstu tveimur árum

Formaður bæjarráðs Akureyrar segir að komast þurfi að niðurstöðu um framtíðarrekstur Öldrunarheimili…
Formaður bæjarráðs Akureyrar segir að komast þurfi að niðurstöðu um framtíðarrekstur Öldrunarheimilina sem fyrst.

Í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2019 og 2020 er gert ráð fyrir 350 milljónum til öldrunarmála. Þar er sérstaklega horft til endurbóta á Dvalarheimilinu Hlíð en vinnuhópur á vegum bæjarins vinnur að endurbótaáætlun á Hlíð. Þetta segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar í samtali við Vikudag.

Eins og fram kom í grein í blaðinu í síðustu viku, sem rituð var af hjúkrunarforstjóra ÖA og forstöðumanni í Lögmannshlíð, er víða aðkallandi þörf til að breyta og bæta aðstæður íbúanna á Hlíð. Þar er núverandi húsnæði úrelt og fullnægir ekki þeim kröfum sem gerðar eru til hjúkrunarheimila í dag.

Í elstu hlutum húsnæðisins í Hlíð búa 54 íbúar og sum herbergin aðeins 9 fermetrar. Þar sem minnstu herbergin eru deila tveir íbúar snyrtingu eða jafnvel tíu íbúar með þrjár snyrtingar. Guðmundur Baldvin segir þetta slæmt en stóra málið sé framtíðarrekstur öldrunarheimilina. Daggjöld duga ekki fyrir rekstri og Akureyrarbær hefur á sl. fimm árum greitt 843 millj­ónir króna með rekstri ÖA.

„Getum ekki kastað þessu svona á milli okkar“

„Daggjöld þurfa að hækka og svo verður einfaldlega að fara að ákveða hver á að reka öldrunarheimilin. Akureyrarbær er með samning út árið 2018 og við höfum sagt við ráðamenn og þingmenn að daggjöldin séu það lág að bragarbótar sé þörf. Það þarf að gerast hratt og við þurfum skýr svör um framhaldið,“ segir Guðmundur Baldvin. Hann segir jafnframt að ekki sé boðlegt að eldri borgurum blæði fyrir togstreitu milli ríkisins og sveitarfé­lagsins í öldrunarmálum.

„Við getum ekki kastað þessu svona á milli okkar endalaust og þurfum að komast að niðurstöðu. Það er alveg ljóst að það vantar stefnu í öldrunarmálin. Rekstur hjúkrunarheimila er að þyngjast. Ég tel að við séum að veita góða þjónustu, en við það þarf að tryggja hærra fjármagn í formi daggjalda svo hægt sé að gera enn betur,“ segir Guðmundur Baldvin.

Nýjast