Prjónakofinn við höfnina á Húsavík

Þórunn og Ragnhildur í Prjónakofanum. Mynd: JS
Þórunn og Ragnhildur í Prjónakofanum. Mynd: JS

3. maí s.l. opnuðu þær tengdamæðgur Ragnhildur Ingólfsdóttir í Eyvík og Þórunn Ágústa Kristjánsdóttir, verslunina Prjónakofann niðri á hafnarstéttinni á Húsavík, steinsnar frá Helguskúr.

Þar eru til sölu dýrðarinnar lopapeysur og fleira sem þær hafa sjálfar prjónað og einnig fáeinar peysur frá Elínu Gunnsteinsdóttur. En mestan part eru þær að selja eigin framleiðslu og eru þar með um leið eigin birgjar, sem er mjög þægilegt, að sögn Ragnhildar. Að auki eru svo til sölu í Prjónakofanum glæsileg útskurðarverk þeirra Þórgríms Björnssonar og Hermanns Ragnarssonar. Og kofinn er skemmtilega innréttaður, hillur og borð smíðuð smekklega úr vörubrettum, sem sé endurnýting á fullu.

Þær Ragnhildur og Þórunn segja að þetta fari rólega af stað, ferðamenn enn aðeins á stangli og svo vantar nokkuð upp á hagstætt veður, því enn sé í raun lopapeysuveður!  Og þær nota auðvitað  tímann þegar rólegt er í versluninni til að prjóna og auka við lagerinn.

Prjónakofinn er alla jafnan opinn frá kl. 10-18, en það er ræðst raunar einnig nokkuð af veðri og traffík. JS

 

Nýjast