Prinsar og prinsessur án konungsdæmis!

Sigurður Guðmundsson.
Sigurður Guðmundsson.

Það þótti sæta tíðindum í sl. viku að allir kjörnir fulltrúar hjá Akureyrarbæ skriðu undir sömu sængina og ætla að vera vinir næstu tvö árin eða svo.  Allir sem einn ætla að taka þátt í því starfi, sem þarf til að bregðast við þeim vanda sem framundan er í fjármálum sveitarfélagsins.  Það vekur furðu mína hvað menn og konur hafa þá verið að gera hingað til þessi rúmu tvö ár sem eru liðin af kjörtímabilinu.  Lítil eru stórvirkin þessi rúmu tvö ár sem liðin eru frá kosningum nema þá helst að hafa skilað verkefnum aftur til ríkisvaldsins sem ber að hrósa fyrir.

Úr fjarlægð lítur þetta vel út. Allir að vinna saman að háleitum markmiðum.  Skipta nokkrum bittlingum á milli sín og trúa í einlægni að verið sé að gera góða hluti. Allir vinir og olnboga hvert annað í taumlausri hamingju. Þar er fyrsta hættumerkið á lofti. Get ekki með nokkru móti skilið hvað bæjarfulltrúum gekk til með þessum nýja meirihluta. Það er ekki lengur nokkur minnihluti sem veitt getur meirihlutanum aðhald sem er nauðsynlegt í öllu pólitísku starfi. Ógn við lýðræðið og frjálsa umræðu. Enginn bæjarfulltrúi getur sagt að hann hafi ekki verið sammála þessu eða hinu enda í einhverju 100% meirihlutahlutasamstarfi sem er í ætt við kommúnisma frekar en lýðræðisleg stjórnmál.

Var lýðræðinu hafnað á Akureyri?  Stjórnsýslan er hönnuð fyrir fulltrúalýðræði en ekki svona óskapnað. Þegar þessi kokteill er skoðaður nánar má velta sér fyrir hver græðir á þessum bræðingi 6 framboða á Akureyri.  Það er reyndar allskonar svör við því. Tap bæjarins á þessu ári og hinu næsta verður líklega um 6 milljarðar fyrir þessu tvö ár. Nú þegar allt er komið í niðurfallið vaknar fólk við vondan draum,  að með athafnaleysi sínu fyrri hluta þessa árs þarf meira en samstillt átak til að snúa skútunni upp í vindinn og festa stefnuna að höfn. Það er auðvitað bráðfyndið að enginn vildi Sjálfstæðismenn í meirihluta, nema þá kannski ég og nokkrir aðrir eftir síðustu kosningar. Menn og konur signdu sig, kveiktu á kertum og komu börnum í skjól þegar ég hafði uppi orð um það.  Nú þykir það bara fínt að fá þá með í grautarpottinn enda eru allir svo æðislega góðir vinir. Það er örlítið snjallt hjá meirihlutanum að leyfa minnihlutanum að koma undir hlýja sængina.

Þar koma 5 bæjarfulltrúar  sem gera sér ekki grein fyrir að um leið og allir brostu saman í meðvirkni voru viðkomandi bæjarfulltrúar komnir með vinstri eða hægri fótinn pikkfastann í það skuldafen sem bærinn er að falla í.  Auðvelt verður að segja mánuði fyrir kosningar að bæjarstjórnin í heild sinni hafi klúðrað öllu sem hægt væri að klúðra.  Þessir 5 halda á móti að með því að fá formennsku í einhverjum nefndum,  færi það þeim völd, frægð og upphefð.  Málið er einfaldlega þannig að svigrúmið er eiginlega ekkert nema með aukinni skuldsetningu bæjarins. Það vill enginn sjá enda vandinn gríðarlegur framundan. Lántaka er samt óumfrýjanleg og mikilvægt að sú lántaka fari ekki í gæluverkefni til að gera kjósendur glaða. Að auki þarf bæjarstjórinn að hlusta á 6 krakka í sandkassa sem koma til með að klaga hvorn annan fyrir að hafa verið leiðinleg og stilla til friðar.  

Einnig þykir mér líklegt að 1 eða 2 bæjarfulltrúar stefni á þingmennsku á næsta kjörtímabili og sé það ástæða þess að bæjarstjóri eigi að hleypa kjörnum fulltrúm meira að þegar kemur að viðtölum og umfjöllunum um bæjarmál. Nú hlýtur að blasa við að uppsagnir séu í farvatninu hjá Akureyrarbæ.  Skerðing á þjónustu og gjaldskrár mögulega hækkaðar. Verður því fróðlegt að fylgjast með hversu mikil samstaða í þessari bæjarstjórn verður við slík verkefni. Það eru mestmegnis vondar ákvarðanir sem þarf að taka á næstunni og ég held að kjörnir fulltrúar hafi ekki dug í sér til að taka þær nema þá í skjóli nafnleyndar.

-Sigurður Guðmundsson, höfundur er fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri

 

 


Athugasemdir

Nýjast