Prentmeti Oddi hefur keypt Ásprent

Ásprent.
Ásprent.

Prentmeti Oddi hefur keypt eignir úr þrotabúi Ásprents en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mánaðarins eins og Vikublaðið greindi frá. Guðmundur Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Prentmets Odda, segir í samtali við Vikublaðið á áhersla verði lögð á alhliða prentþjónustu þar sem efla á stafræna prentun og límmiðaprentun. Öflug stafræn prentvél mun bætast við og verða því tvær slíkar á staðnum. Einnig verður bætt við tækjakost í límmiðaprentun.

Guðmundur segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um offset prentun en blöð eins og Dagskráin og Vikublaðið heyra undir slíka prentun. „Við gerum ráð fyrir því að offsetprentun fari fram í Reykjavík en þó er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Við munum skoða það betur,“ segir Guðmundur.  „Hér fyrir sunnan erum við með litla stafræna prentvél í límmiðum og munum senda stærri verk norður til prentunar."

Sex starfsmenn í fullu starfi

Búið er að ráða sex starfsmenn í fullt starf en alls störfuðu 20 manns hjá Ásprent. Fulltrúar Prentmets Odda munu koma norður á morgun og funda með starfsfólki og fara yfir framtíðaráætlanir.

Guðmundur segir að prentsmiðjur eigi almennt undir högg að sækja og rekstrarumhverfið sé erfitt. „Við þurfum að bregðast við breyttum veruleika í prentiðnaði og ætlum að gera okkar besta í að búa til góðan rekstur fyrir norðan við þær aðstæður sem við lifum við í dag.“


Nýjast