Píratar á Norðausturlandi gagnrýna orð Sigmundar Davíðs

Stjórn Pírata á Norðausturlandi sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi eru harðlega gagnrýnd.

Þar er vísað til orða formanns Framsóknarflokksins í viðtali í þætti Páls Magnússonar, Sprengisandi. Þar sagði hann að ekkert liggi á að halda þingkosningar í haust þrátt fyrir orð Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra fyrr í vor.

Stjórn Pírata á Norðausturlandi segir Sigmund Davíð sýna Alþingi og almenningi „fádæma dónaskap og óvirðingu“.

Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér að neðan. /epe.

Yfirlýsing frá stjórn Pírata á Norðausturlandi, 23. 5. 2016

Stjórn Pírata á Norðausturlandi gagnrýnir harðlega orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, að engin ástæða sé til að að kosningar til Alþingis fari fram í haust. Það ætti að vera óþarft að rifja upp þá atburðarás sem varð til þess að Sigmundur Davíð hrökklaðist úr starfi forsætisráðherra í byrjun apríl og ákvörðun um haustkosningar var tekin.
Með því að láta eins og ekkert hafi í skorist sýnir hann Alþingi og almenningi fádæma dónaskap og óvirðingu með þessum orðum sínum. Sigmundi Davíð ber að virða ákvörðun stjórnarflokkanna, sem tekin var í sjálfskipaðri útlegð hans, og munu Píratar á Norðausturlandi ekki láta sitt eftir liggja til að almenningur fái að ganga að kjörborðinu í haust, eins og lofað hefur verið.

 

Nýjast