PCC: „Enn á þó eftir að ganga frá mörgum lausum endum"

Kísilver PCC á Bakka. Mynd/epe
Kísilver PCC á Bakka. Mynd/epe

Greint hefur verið frá því áður að PCC á Bakka við Húsavík stefnir að því að endurræsa annan ljósbogaofn kísilversins í apríl og hinn ljósbogaofninn fljótlega í kjölfarið. Í samtali við Vikublaðið segir Rúnar Sigurpálsson, forstjóri að það sé enn stefnan. „Enn á þó eftir að ganga frá mörgum lausum endum til að svo geti orðið,“ segir hann.

Slökkt var á báðum ofnum og meirihluta starfsfólks sagt upp síðasta sumar. Síðan þá hefur verið unnið að endurbótum á verksmiðjunni sem hafi dregist á langinn þar sem afhending á vissum búnaði hafi seinkað.

Félagið hóf í byrjun ársins að endurráða starfsfólk og að sögn Rúnars hefur það gengið vel. „Ráðningar hafa gengið ágætlega, helst að það hafi verið vandamál með að fá iðnaðarmenn,“ útskýrir Rúnar og bætir við að reiknað sé með að um 140 manns verði við störf þegar ofnarnir verða ræstir en það er svipaður fjöldi og starfaði hjá verksmiðjunni áður en henni var lokað tímabundið.

Þá hafa markaðir verið að vænkast og er Rúnar bjartsýnn á framhaldið. „Verð hafa mjakast í rétta átt undanfarna mánuði.“


Athugasemdir

Nýjast