PCC á Bakka: Annar ofninn ræstur eftir helgi

Kísilver PCC á Bakka. Mynd/epe
Kísilver PCC á Bakka. Mynd/epe

Undirbúningur fyrir endurgangsetningu kísilvers PCC á Bakka við Húsavík er nú á lokametrunum og stefnt er að því að hefja uppkeyrslu eins ofnsins á mánudagsmorgun. Þetta kemur fram í tilkynningu sem PCC sendi frá sér fyrir stundu.

„Uppkeyrsluferlið hefst með viðarbruna í u.þ.b. 24 klst. áður en hægt er að hleypa afli á ofninn. Meðan á þessu ferli stendur má búast við að ljós reykur eða hitamistur ásamt kamínulykt muni berast frá verksmiðjunni. Við vonum að þetta valdi íbúum í nágrenni við okkur ekki miklu ónæði,“ segir í tilkynningunni.

Þá er gert ráð fyrir að afli verði á ofninn á þriðjudag og hann hitaður upp jafnt og þétt í um fjóra daga. Ekki er von á reyk frá verksmiðjunni á meðan þetta fer fram. Fyrirhugað er að fyrsta töppun úr ofninum muni eiga sér stað í kringum vikulok.

 


Nýjast