„Þetta var nú ekkert merkilegt sem við buðum uppá og við vorum ekki alveg í fullum gír. Ég held að maður hefði alveg fundið skemmtilegri hluti að gera ef maður hefði verið almennur áhugamaður,” sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, eftir öruggan 5:0 sigur sinna manna gegn Leikni F. í 32-liða úrslitum Valitor-bikar karla í knattspyrnu í Boganum í kvöld. Leikurinn var lítið spennandi og lítt skemmtilegur á að horfa, en yfirburðir Þórs voru afgerandi í leiknum og eftir fyrsta mark þeirra var eins og gestirnir hefðu hreinlega gefist upp.
Izudin Daði Dervic, þjálfari Leiknismanna, var þó ágætlega sáttur við sína menn.
„Þórsarar eru alltof sterkir fyrir okkur en við byrjuðum ágætlega. Fyrstu tuttugu mínúturnar voru fínar en eftir að þeir skoruðu fyrsta markið að þá var þetta bara einstefna. Ég er ágætlega sáttur við mína menn, þetta eru bara krakkar sem eru í vinnu og fótboltinn númer tvö. Þetta var fín reynsla fyrir þá og það er alltaf gaman að mæta úrvalsdeildarliði,” sagði Daði Dervic.
Dregið verður í 16-liða úrslit bikarkeppninnar í hádeginu á morgun og þar verða Þórsarar í pottinum. Aðspurður um draumamótherja svarar Páll Viðar: „Það eru engir sérstakir draumamótherjar. Það sem skiptir öllu er að fá heimaleik á Þórsvelli, vilja ekki margir fá bikarmeistarana,” segir Páll, en FH-ingar eru ríkjandi bikarmeistarar. Hafnfirðingarnir unnu Fylkismenn í kvöld og verða því í pottinum á morgun.
„Við höfum trú á því að við getum lagt öll lið á heimavelli og það virðist vera þannig með okkur að því betra lið sem við mætum að því meira leggja leikmennirnir mínir í verkefnið. Það er eins og þeir þurfi smá áskorun,” sagði Páll.