Páll Viðar: Þeir voru einfaldlega klókari
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs var að vonum svekktur eftir tapið gegn Breiðabliki í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Eftir 2-1 sigur Blika eru Kópavogsdrengirnir sloppnir við fall, en skildu Þórsara hins vegar eftir með bakið upp að vegg fyrir lokaumferðina næstu helgi.
Það var sárt að tapa þessu en ég held að þeir hafa bara verið klókari en við í dag. Það var bara þannig. Þó að það hafi ekki alltaf gengið eins og í sögu hjá Blikunum í sumar að þá er þetta mjög gott fótboltalið. Við vorum í vandræðum með þá og þeir höfðu yfirhöndina á miðjunni og við náum ekki að þétta miðjusvæðið nógu mikið. Ætli þetta hafi ekki verið sanngjarn sigur hjá þeim og betri fótboltinn unnið í dag, sagði Páll við Vikudag eftir leik.
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks gat hins vegar leyft sér að brosa út í annað eftir sigurinn í dag.
Já ég held að það sé þungu fargi létt af okkur og öllum þeim liðum sem fengu þrjú stig í þessari fallbaráttu í dag. Það var dugnaður leikmannana og sú staðfesta trú þeirra á verkefnið sem skóp þennan sigur. Það er sætt að horfa í andlitið á þeim núna og sjá feiginleikan og léttinn sem fylgir því að hafa ná markmiðunum. Við vorum með yfirhöndina og þetta var sanngjarn sigur, sagði Ólafur.