Páll Viðar: Get ekki kvartað yfir stiginu
„Það er ekki oft sem ég er sáttur með jafntefli en ég er það í kvöld,” sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, eftir 2:2 jafntefli gegn FH á Þórsvelli í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Leikurinn var hin mesta skemmtun og bauð upp á mikla dramatík. Jafntefli sennilega sanngjörn niðurstaða. Þórsarar léku allan seinni hálfleikinn einum færri, en voru engu að síður aðeins nokkrum mínútum frá því að ná öllum þremur stigunum í kvöld, en FH jafnaði á 90. mínútu.
„Við börðumst fyrir lífi okkar í seinni hálfleik einum færri. Þannig að ég get ekkert kvartað þó að það hafi verið sárt að fá þetta mark á sig. Ég væri hins vegar hrokafullur ef ég segði þetta ekki sanngjarna niðurstöðu,” sagði Páll. Það var ekki merkjanlegur munur á spilamennsku Þórs í fyrri og seinni hálfleik, þrátt fyrir að leika manni færri síðustu 45 mínúturnar. „Menn lögðu extra mikið á sig í seinni hálfleik og ég held að menn hafi sýnt það í kvöld að það er mikið spunnið í þetta Þórslið,” Páll Viðar.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH-inga var nokkuð sáttur við stigið í kvöld, en FH-ingar voru hársbreidd frá því að stela sigrinum eftir að hafa jafnaði á lokamínútu hefðbundins leiktíma.
„Ég held að fólk hljóti að hafa skemmt sér vel í kvöld. Þetta var hörkuleikur, fullt af færum og fjögur mörk,” sagði Heimir. Eflaust áttu flestir von á einstefnu að marki Þórs í síðari hálfleik, eftir að heimamenn lentu manni færri undir lok fyrri hálfleiks. Annað kom hins vegar daginn og Þórsarar stóðu vel í gestunum út leikinn.
„Við vorum töluvert sterkari fannst mér í fyrri hálfleik og byrjum þann seinni með marki. Svo förum við bara að spila gegn okkur. Við hættum að gera það sem virkaði og hleyptum Þórsurum inn í leikinn sem refsuðu okkur. Við fengum fullt af færum og hefðum geta stolið þessu. Miðað við hvernig við spiluðum í seinni hálfleik er ég þokkalega sáttur með stigið,” sagði Heimir.
Atli Sigurjónsson átti góðan leik fyrir Þór á miðjunni og var einn besti maður vallarins.
„Þetta var smá rússíbani í kvöld. Útlitið var ekki gott um tíma, einum manni færri og marki undir. Við hins vegar bættum bara í eftir það. Baráttan, viljinn og hlaupagetan jókst bara og ég held að við höfum bara haft gott að þessu þegar uppi er staðið,” sagði Atli, sem var þokkalega sáttur með stig í kvöld.
„Ég er sáttur og ekki sáttur. Við vorum komnir í 2:1 og fáum mark á okkur sem maður ekki sáttur við. Við lentum hins vegar marki undir þannig að við getum verið sáttir með eitt stig,” sagði Atli.