Páll Viðar: Ekki fallegur sigur

„Þetta var ekki fallegur sigur hjá okkur í kvöld en þetta er víst það sem telur í bikarnum, að vinna," sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs eftir 3:1 sigur sinna manna gegn Víkingi á Þórsvelli í kvöld, í 16-liða úrslitum Valitor-bikar karla í knattspyrnu. Þórsarar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin. Páll var ekkert sérstaklega sáttur með frammistöðu sinna manna í leiknum í kvöld og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Ég á eftir að rúlla aðeins yfir þennan leik en við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik. Sennilega það slakasta sem ég hef séð til minna manna. Við vorum hins vegar aðeins betri í seinni hálfleik en það er ljóst að við eigum mikið inni. Ég er ekki alveg sáttur með hvað menn detta mikið niður á milli leikja en ég klárlega sáttur með sigurinn," sagði Páll Viðar Gíslason við Vikudag.

Nýjast