Páll Viðar: Á ekki orð yfir að hafa tapað

Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs var hundfúll og allt annað en sáttur við sín menn eftir 1:2 tap Þórs gegn KR í kvöld á Þórsvelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. KR-ingar skoruðu sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok, þrátt fyrir að vera einum manni færri. „Þetta er munurinn á KR og Þór, það er bara þannig. Aftur missa þeir mann útaf og við förum bara í bremsu við það. Við komum ekki boltanum einu sinni inn í teig síðustu 6-7 mínúturnar og það segir bara það að okkur langar ekki að vinna þennan leik.“

Þórsurum hefur gengið skelfilega að nýta sér liðsmuninn í sumar og það hefur reynst norðanmönnum dýrt.

„Við erum margoft búnir að tala um þetta. Það eru eins og leikmenn setja sig bara í frí þegar við erum manni fleiri og halda að hlutirnir gerast af sjálfum sér. Það vita allir sem spila fótbolta að þegar lið missir mann af velli að þá þétta þeir sig saman og þegar andstæðingurinn leyfir þeim bara að spila sinn leik verða þeir náttúrulega ennþá betri. Við verðum að vinna í þessu sem og mörgu öðru og ég hef sjaldan verið jafn fúll eftir leik og núna. Ég á ekki orð yfir að hafa tapað þessum leik,“ sagði pirraður Páll Viðar Gíslason eftir leik.

Grétar Sigfinnur Sigurðsson fyrirliði KR var öllu hressari enda styrktu KR-ingar stöðu sína á toppi deildarinnar með sigrinum.

„Þetta var erfitt því að Þórsarar eru með gríðarlega flott lið. Mér fannst allt annar bragur yfir okkur núna og við vorum mikið betri í kvöld en í bikarúrslitaleiknum. Núna fannst mér við hafa tökin á leiknum allan tímann og markið sem Þór skoraði kom gegn gangi leiksins, þótt markið hafi verið fallegt. Við sýnum aftur karekter með að vinna einum manni færri og það sýnir bara okkar styrkleika,“ sagði Grétar.

Nýjast