Það eru allir í blóðugum niðurskurði, en því miður virðumst við verða verr fyrir barðinu á honum en aðrir, segir Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður, en lögreglunni á Akureyri var á fjárlögum fyrir árið 2012 gert að skera niður útgjöld um 3%. Það er mun meira en flestum öðrum lögregluembættum í landinu var gert að gera, en að meðaltali var niðurskurður hjá lögreglunni 1,5%. Björn Jósef segir þetta verulega bagalegt og koma illa niður á starfsemi lögreglunnar, sem hafi ærin verkefni á sinni könnu og sinni m.a. æ oftar verkefnum víða um Norðurland. Lögreglan á Akureyri þjónar nú rúmlega 24 þúsund íbúum og rannsóknardeild rúmlega 36 þúsund íbúum, en hvergi á landinu eru fleiri íbúar á bak við hvern lögreglumann en á Akureyri.
Sýslumaður segir að fyrir hafi legið eftir hrun að niðurskurður yrði viðvarandi næstu ár á eftir og því hafi strax verið tekið á málum innan embættisins, m.a. með því að ráða ekki í stöður sem losnuðu ásamt því sem fleiri ráðstafanir voru gerðar til að mæta minnkandi fjárframlögum. Gert hafi verið ráð fyrir að sá niðurskurður sem gengið var í árið 2010 væri nægur til næstu ára. Embættið hafi því staðið vel og verið innan fjárheimilda undanfarin ár þrátt fyrir að hafa minna fjármagn til ráðstöfunar en áður rétt eins og stefnt var að. Það komi því á óvart að niðurskurður 2012 skuli hafa verið svo mikill sem raun ber vitni. Þetta embætti hefur staðið ágætlega og ekki verið með neina framúrkeyrslu, það er því algjörlega óviðunandi að búa við það að okkur sé gert að skera mun meira niður en öðrum embættum, segir Björn Jósef.