Óvænt heimsókn til Hríseyjar
Fyrsta skemmtiferðaskipið kom óvænt til Hríseyjar á dögunum. Til stóð að skipið færi til Siglufjarðar og Grímseyjar en varð frá að hverfa vegna óhagstæðrar vindáttar. Í staðinn var haldið til Hríseyjar og fólk ferjað í land. Hríseyingar brugðust snarlega við og tóku vel á móti gestunum, segir á vef Akureyrarbæjar.
„Um 160 farþegar stigu á land og meðal þess sem fólkið gerði var að skoða sig um í þorpinu, fara í traktorsferðir og heimsækja Hús Hákarla Jörundar. Farþegarnir voru fluttir í land í slöngubátum, 6–8 manns í einu. Mikil ánægja var með heimsóknina í Hrísey og binda menn vonir við að þessi óvænta heimsókn verði til þess að byggja upp frekari þjónustu á þessu sviði,“ segir á vef Akureyrar.
Skipið sem kom heitir Fram og er á vegum Hurtigruten Group sem leggur áherslu á siglingar um Norðursjó og Norður Atlantshafið á sumrin.