Óttast að Grímsey verði útundan eftir sameiningu við Akureyri

"Við höfum bara ekki neinn valkost," segir Gylfi Gunnarsson útgerðarmaður í Grímsey um viðræður Akureyrarbæjar og Grímseyjarhrepps um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sjálfur kvaðst hann lítið hafa kynnt sér málið og sagði Grímseyinga um margt hafa ræða þessa dagana og hann verði ekki var við miklar umræður um sameiningarmálið í eynni.  

"Ég er nú ekki hrifinn af þessu sjálfur, mér líst ekki nógu vel á, en staðan hjá okkur Grímseyingum er því miður ekki góð um þessar mundir og við höfum enga valkosti núna.  Eflaust hefðum við meiri möguleika hefðum við ekki lent í mjög óheppilegum aðstæðum og staða okkar er því mjög slæm," segir Gylfi.

Hann kveðst óttast að Grímsey verði útundan, langt norður í hafi, "bara svona eins og Ísland verður í Evrópusambandinu," segir hann.  "Við verðum hjáróma rödd og ég er því miður ekki sérlega bjartsýnn á þetta en sameiningarmálið er ekki neitt hitamál hér, við höfum um nóg annað að ræða."

Nýjast