Óskynsamlegt á tímum atvinnuleysis

Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga segir að töluverður samdráttur verði í  framkvæmdum í sumar miðað við síðasta ár, en fjárveitingar hafi lækkað verulega. Áætlað er að gróðursetja um 500.000 þúsund plöntur í sumar, sem er um 200 þúsund plöntum minna en var í fyrra og þá verður öllum öðrum framkvæmdum haldið í lágmarki.

Valgerður segir að menn vænti þess að botninum sé náð og að það fari að rofa til, en gróðursetningar í sumar á vegum Norðurlandsskóga eru einungis um þriðjungur af því sem var þegar mest var fyrir fimm árum. „Þetta er bagalegt, ekki síst þegar til framtíðar er ltið og fyrirsjáanlegt að lægð verður í timburframboði um eitthvert árabil,“segir Valgerður.

Starfsfólk var á dögunum farið að undirbúa gróðursetningar sumarsins, en bíða nú átekta á meðan vorhretið gengur yfir.Valgerður segir samdrátt koma beint niður á atvinnu á Norðurlandi, minna sé umleikis hjá bændum og mikill samdráttur í framleiðslu á plöntum leiði til þess að færri fá sumarvinnu í gróðrarstöðvum. 

„Það er óskynsamlegt á tímum atvinnuleysis að draga saman fjárveitingar til skógræktarverkefna.  Þá höfum við margoft bent á að skógrækt er ein öflugasta leiðin til að binda kolefni og byggja upp auðlind sem í framtíðinni getur staðið undir margvíslegum iðnaði,“ segir Valgerður.

Nýjast