„Óskiljanleg leyndin sem hefur hvílt yfir þessu“

Ráðhúsið á Akureyri. Mynd úr safni.
Ráðhúsið á Akureyri. Mynd úr safni.

Sigurður Guðmundsson fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri ritaði pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann gagrýndi harðlega vinnbrögð bæjarráð Akureyrar við sölu á 16,3 % hlut bæjarins í fjárfestingasjóðnum Tækifæri hf. til KEA svf. fyrir 120 milljónir króna. Vikudagur sagði frá þessu fyrir helgi.

Sigurður sakaði bæjarráð um spillingu við meðferð málsins. Hann bendir á að bókfært virði eignarhlutarins hafi verið 144 milljónir sem síðan var seldur á 120 milljónir í leyndu söluferli og afgreiðslan færð í trúnaðarbók bæjarráðs í janúar. Hann gagnrýnir jafnframt að hlutur bæjarins hafi ekki verið boðinn út og undrast yfir því að faglegt verðmat hafi ekki farið fram eða fyrirvari gerður um góða afkomu í sölusamningi.

Formaður bæjarráðs er Guðmundur Baldvin Guðmundsson, skrifstofustjóri Stapa lífeyrissjóðs. Stapi er jafnframt einn stærsti hluthafinn í Tækifæri hf.

Sigurður segir í pistli sínum að Guðmundur Baldvin hafi setið fundinn þar sem salan var samþykkt og lætur í veðri vaka að hann hafi verið vanhæfur.

Kallar eftir óháðri rannsókn

Vikudagur sendi í gær öllum fulltrúum í bæjarráði ásamt bæjarstjóra bréf með tölvupósti þar sem óskað er eftir svörum við lykilspurningum í þessu máli m.a. hvað varðar þá leynd sem hvílir yfir sölunni og meint vanhæfi formanns bæjarráðs.

Preben Jón Pétursson bæjarfulltrúi fyrir Bjarta framtíð bendir á í skriflegu svari til Vikudags að hann hafi ekki komið inn í bæjarstjórn og bæjarráð fyrr en í mars á þessu ári og þekki því ekki forsögu málsins nógu vel né umræður á fundum í sambandi við sölunna. Þá telur Preben að fara þurfi vandlega yfir málið.

„Það er margt í þessu ferli sem vekur upp spurningar sem í mínum huga er ósvarað. Eftir því sem mér skilst þá voru allir bæjarfulltrúar á þessum tíma upplýstir um  málið og  endanleg ákvörðun síðan tekin í bæjarráði  21. janúar 2016 enda á málið heima þar,“ segir Preben. Hann metur stöðuna þannig að nauðsynlegt sé að fram fari óháð rannsókn á söluferlinu. „Nauðsynlegt er líka að mínu mati að fara yfir verkferla og alveg óskiljanleg leyndin sem hefur hvílt yfir þessu,“ segir hann.

Ber fyrir sig reynsluleysi

Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð viðurkennir í samtali við Vikudag að ýmislegt í söluferlinu á hlut Akureyrarbæjar í Tækifæri hf. hefði betur mátt fara og kennir reynsluleysi sínu innan stjórnsýslunnar um að hafa ekki verið gagnrýnni á meðferð málsins á sínum tíma. Hún sagðist fyrst hafa heyrt af þessu máli þegar kauptilboðið upp á 120 milljónir króna í 16,3 % hlut Akureyrarbæjar í Tækifæri hf. barst frá KEA svf. sem hafi þótt ásættanlegt á þeim tíma. „Ég er upplýst um söluna þegar hún er lögð fyrir bæjarráð og samþykkt, ég var í bæjarráði á þeim tíma,“ segir hún, og viðurkennnir að hún hafi ekki getað haft upplýsta skoðun á virði hlutarins.

Jafnframt segir hún að félagið hefði átt að fara í óháð verðmat áður en gengið var að tilboðinu. „Ég get bara talað fyrir sjálfa mig og verð að segja að ég myndi gera það næst, mér datt það ekki í hug á þeim tíma. Fyrir mig er þetta persónulegur lærdómur“.

Hagsmunaárekstur ekki ræddur

Aðspurð hvort einhverntíma hafi verið minnst á hugsanlegan hagsmunaárekstur Guðmundar Baldvins Guðmundssonar formanns bæjarráðs, sagðist hún ekki muna til þess að það hafi borist í tal. Guðmundur Baldvin er skrifstofustjóri Stapa lífeyrissjóðs sem er einn stærsti hluthafinn í Tækifæri hf. Sóley Björk segist hafa metið það sjálf svo að ekki hafi verið um hagsmunaárekstur að ræða þar sem það væri ekki Stapi sem væri að kaupa hlutinn. „En það verður náttúrlega að sækja eitthvað álit á því,“ segir hún.

Sóley Björk segir einnig að það hafi verið mistök að bóka söluna í trúnaðarbók, hún sjái það núna. „Svo sér maður að Eyjafjarðarsveit er að bóka um þetta í fundargerð og setur inn kaupverð og allt. Auðvitað á það að vera þannig,“ segir hún og bætir við: „Maður er kannski ekki nógu duglegur að vera gagnrýnin, en þá kemur einmitt þetta reynsluleysi aftur.“

Eðlilegt að selja hlut bæjarins

Sóley Björk tekur það einnig fram að það sé ekkert athugavert við það að Akureyrarbær selji hlut sinn í Tækifæri hf. þrátt fyrir að félagið sé að skila miklum hagnaði . Hún bendir á að félagið er nýsköpunarfjárfestingasjóður sem fáist í raun og veru við áhætturekstur.

Eftir efnahagshrunið 2008 hafi verið eðlilegt að Akureyrarbær tæki þátt í fjárfestingu í nýsköpun á meðan fjárfestar voru af skornum skammti. „En mér fannst sömuleiðis eðlilegt að Akureyrarbær væri ekki þátttakandi í slíkum rekstri í því umhverfi sem síðan hefur skapast þegar nóg er til af fjárfestum,“ segir Sóley Björk og vekur athygli á því að Tækfæri hf. hafi verið búið að fjárfesta í tveimur fjölmiðlum.

„Okkur fannst ekki eðlilegt að Akureyrarbær ætti hlut í félagi sem ætti tvo fjölmiðla. Þannig að mér fannst alveg borðleggjandi að selja þetta. En auðvitað hefði þetta átt að vera í opnu söluferli. Maður sér það skýrum stöfum fyrir framan sig núna,“ segir hún.

Þarna vísar hún til þess að Tækifæri hf. á 58% hlut í N4 ehf. sem rekur tvo miðla; N4 Dagskrá Norðurlands og N4 Sjónvarp.

Vikudagur hefur ekki enn fengið svör við þeim lykilspurningum sem sendar hafa verið á bæjarráðsmenn og bæjarstjóra. Logi Már Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingar sem jafnframt á sæti í bæjarráði sagði í  samtali við Vikudag að bæjarráð kæmi saman á fimmtudag þar sem farið yrði yfir málið og vildi ekki tjá sig frekar að svo stöddu. Hann vísaði í tilkynningu sem bæjaráð sendi frá sér fyrir helgi.

 

Nýjast