Óskiljanleg ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar

Glaðbeitt leikskólabörn á Iðavelli.
Glaðbeitt leikskólabörn á Iðavelli.

Ákvörðun Akureyrarbæjar um skerðingu á þjónustu leikskólabarna og fjölskyldna þeirra með því að hætta að bjóða upp á morgunmat á leikskólum bæjarins í þeirri mynd sem verið hefur, á sama tíma og tólf prósenta hækkun á gjaldskrá leikskólanna er kynnt, er með öllu óskiljanleg. Foreldraráð og stjórn foreldrafélags leikskólans Iðavallar gagnrýna harðlega þessa ákvörðun í ályktun sem afhent hefur verið skólanefnd og bæjarstjóra Akureyrar. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

“Í fyrsta lagi skýtur það vægast sagt skökku við að bæjarfélag sem gefur sig út fyrir að vera fjölskylduvænt skuli taka svona einhliða ákvörðun sem er í andstöðu við vilja meirihluta foreldra leikskólabarna á Akureyri. Niðurstöður könnunar sem bæjaryfirvöld gerðu á meðal foreldra fyrr á árinu sýna þetta svart á hvítu. Í könnuninni kemur m.a. fram að fast að 70% foreldra eru andsnúnir því að taka upp „ávaxtastund“, eins og það er kallað í skýrslu um niðurstöðurnar, í stað þess morgunverðar sem tíðkast hefur. Þrátt fyrir þessa afgerandi niðurstöðu ákveða bæjaryfirvöld að grípa til áðurnefndra breytinga.

Einnig var spurt í könnuninni hvort foreldrar væru reiðubúnir að greiða hærra fæðisgjald svo betur væri komið til móts við þarfir barnanna í þessum efnum. Rúmlega helmingur foreldra var hlynntur því. Þrátt fyrir það ákvað Akureyrarbær að velja fyrri kostinn. Þetta verður að teljast einkennileg ákvörðun, og ekki síður þegar lesin eru eftirfarandi orð inni á vefsíðu bæjaryfirvalda sem iðulega heyrast í einni eða annarri mynd á tyllidögum: „Akureyrarkaupstaður leggur áherslu á að veita einstaklingum og fjölskyldum fyrirmyndar búsetuaðstæður og faglega þjónustu. Sérstök áhersla er lögð á góða leik- og grunnskóla [...]“.

Orð formanns skólanefndar Akureyrarbæjar í útvarpsfréttum RÚV 10. desember sl., að með breytingunni sé fjölskyldum jafnvel „gert kleift að eiga notalega morgunstund“ í formi sameiginlegs morgunverðar á heimilinu, eru hjákátleg. Af þessum orðum verður ekki annað skilið en að formaðurinn telji fjölskyldur ekki hafa getað átt slíka stund hingað til, sem er auðvitað þvættingur. Í viðtalinu við formann skólanefndar kom einnig fram að hagræðingin sem af þessu hlýst, fimmtán milljónir króna, samsvari fimm stöðugildum. Þó sé ekki reiknað með uppsögnum. Spurningin sem eftir stendur hlýtur því að vera: Breyttist það á einni nóttu að ávextir urðu miklu ódýrari en haframjöl og salt?

Að hækka leikskólagjöld er eitt. Það kemur „einungis“ við pyngju foreldranna. En að hætta með morgunverð þýðir bæði meiri fjárútlát fyrir heimilin, og sem að okkar mati skiptir mestu máli, breytingu á rútínu barnanna okkar; að mæta í leikskólann sinn og hefja daginn á að borða með skólafélögunum. Hefur ekki einnig verið hamrað á því síðustu ár að morgunverður sé mikilvægasta máltíð dagsins með hliðsjón af hollustu og heilbrigði? Að innleiða meira af ávöxtum og grænmeti í fæðu leikskólabarna er af hinu góða, en kornmeti á borð við hafragraut og morgunkorn hvers konar hefur ekki verið stimplað sem varhugavert í tilmælum Lýðheilsustöðvar svo okkur sé kunnugt um. Reyndar er þvert á móti talað um kornmeti og mjólkurmat eða morgunkorn með mjólk ásamt ávöxtum og grænmeti sem hluta af þeim morgunmat sem æskilegt þykir að bjóða leikskólabörnum upp á, samkvæmt Handbók fyrir leikskólaeldhús sem Lýðheilsustöð setti saman og gaf út árið 2005.

Vissulega er ekkert óeðlilegt við það að leikskólabörn borði morgunmat heima hjá sér á virkum dögum, því það er jú það sem þau gera um helgar. Og ef þessi hugmynd hefði verið rædd við fulltrúa foreldra í góðu tómi er alveg eins víst að sátt hefði náðst um að a.m.k. prófa þessa skipan mála í ákveðinn tíma eða eitthvað þvíumlíkt. En hvernig að kynningu á breytingunum er staðið og tímasetningin er afar gagnrýnivert. Ákvörðunin er tekin án alls samráðs og gegn vilja foreldra líkt og áður er lýst, og fyrirvarinn er einungis þrjár vikur. Hið breytta fyrirkomulag á að taka gildi strax í byrjun janúar nk., á „versta“ tíma ársins ef hægt er að orða það þannig. Það er, foreldrar þurfa með þessu að hefja daginn talsvert fyrr til að gefa börnunum tíma til að borða, en þetta er einnig sá tími ársins þar sem þegar var þörf á að rísa fyrr úr rekkju en á öðrum árstímum vegna veðráttunnar, t.d. til að hafa tíma til að skafa af farartækjum og vegna þess að í þessu svartasta skammdegi tekur einatt lengri tíma að komast á milli staða sökum færðar á götum og gangstéttum bæjarins.

Tilkynningin sem skóladeild Akureyrarbæjar sendi foreldrum varðandi breytinguna er svo enn einn liður þessa máls sem við getum ekki látið hjá líða að lýsa furðu okkar yfir. Á henni mátti skilja að hin svokallaða „ávaxtastund“ væri hrein viðbót við morgunverðinn sem tíðkast hefur á leikskólunum en ekki að hún ætti að koma í staðinn fyrir hann. Þessi framsetning á kynningu breytinganna segir sennilega meira en mörg orð um hvað hin fyrirhugaða breyting er lúpuleg fyrst þeir sem að henni standa virðast ekki treysta sér til að tilkynna hana á hreinskilinn hátt. Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér hvort vonast var eftir innan bæjarstjórnar að foreldrar og forráðamenn myndu vegna véfréttastílsins ekki átta sig á breytingunni fyrr en full seint þætti að bakka með hana.

Það er einlæg von okkar að börnin á leikskólum Akureyrarbæjar fái áfram að búa við þann möguleika að borða morgunverð í leikskólanum strax og þau mæta á morgnana. Við skorum því á skóladeild og skólanefnd Akureyrarbæjar að hætta við fyrirhugaðar breytingar á morgunverði barnanna og finna aðrar leiðir til að hagræða í rekstri bæjarfélagsins,” segir í ályktun foreldraráðs og stjórnar foreldrafélags leikskólans Iðavallar.

 

 

 

 

 

Nýjast