Óskar eftir utandagskrárumræðu um kaup útlendinga á jarðnæði á Íslandi
Sigmundur skrifar grein í Vikudag í síðustu viku, þar sem hann segir m.a: "Einfaldlega má segja að stjórnmálaumræðan á Íslandi snúist um tvo kosti; að opna landið, eða loka því. Í þessu ljósi ber að skoða viðbrögð Íslendinga við áformum kínverska fjárfestisins Huangs Nubo um stórtæka ferðaþjónustu norðan heiða og sunnan. Menn ýmist fagna möguleikanum, eða hrökkva af hjörunum. Ég er talsmaður opins lands. Ég tel að lífskjör hér á landi muni ekki standast samjöfnuð við það besta erlendis nema landsmenn eigi sem greiðust viðskipti við útlönd - og það af öllu tagi. Eðlileg forsenda þessa er að allt regluverk standist sértækustu tilfelli - og sé með þeim hætti að almannahagsmunum sé ekki fórnað á kostnað sérhagsmuna. Að þessum sjálfsögðu skilyrðum uppfylltum geta Íslendingar verið fullir sjálfstraust í viðskiptum sínum við aðrar þjóðir. Þeir eiga ekki að fara í vörn í hvert sinn sem útlendingur ámálgar að festa hér fjármuni sína. Fyrsti kostur á ekki að vera að snúa við þeim baki, heldur rétta þeim höndina. Og affarasælla er að spjalla við þá, fremur en að þegja."