Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, gerði alvarlegar athugasemdir við ráðningarferlið í stöður sviðsstjóra hjá Akureyrarbæ en málið var rætt á bæjarráðsfundi 8. Desember sl. Fjallað var um málið í Vikudegi. Áður höfðu verið gerðar athugasemdir við ráðningarferlið í íþróttaráði og framkvæmdaráði
Akureyrarbær fór í umtalsverðar breytingar á stjórnsýsluháttum bæjarins í haust og sneru breytingar m.a. að því að sameina svið og ráða í fjórar nýjar stöður sviðsstjóra. Gagnrýnin snýr fyrst og fremst að umsagnarferlinu við ráðningu í stöður sviðsstjóra og að ekki hafi verið leitað til nefnda eftir umsögn.
Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var samþykkt að kalla til auka bæjarráðsfundar mánudaginn 19. desember til að ræða málið frekar. Á þeim fundi óskaði Gunnar eftir því að aðgerðarhópur sem skipaður var af bæjaráði til að vinna að innleiðingu stjórnsýslubreytinga sem samþykktar hafa verið, verði lagður niður. Í bókun hans segir:
„Ég legg til að sá aðgerðarhópur sem skipaður var af bæjaráði til að vinna að innleiðingu stjórnsýslubreytinga sem samþykktar hafa verið, verði lagður niður. Það er búið að ráða sviðsstjóra og það er þeirra hlutverk í samráði við sína starfsmenn og bæjarstjóra að skipa málum hver á sínu sviði. Ef fram koma tillögur um breytingu á skipuriti sviða í þeirri vinnu verða þær tillögur lagðar fyrir viðkomandi fagnefnd og stjórnsýslunefnd“.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista, Matthías Rögnvaldsson L-lista, Sigríður Huld Jónsdóttir S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista lögðu fram tillögu um að ekki yrði tekin afstaða til tillögu Gunnars á þessum fundi. Tillagan var samþykkt með atkvæðum meirihluta bæjarráðs.
Gunnar Gíslason D-lista greiddi atkvæði á móti tillögunni og Preben Jón Pétursson Æ-lista sat hjá.
Sjá einnig: Gera alvarlegar athugasemdir við ráðningarferli í stöður sviðsstjóra
þev/epe