Ósk um leyfi til móttöku og umhleðslu á sorpi hafnað
Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar hafnaði á fundi sínum í vikunni, erindi frá Íslenska Gámafélaginu ehf., þar sem óskað var eftir leyfi til móttöku og umhleðslu á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað, í húsnæðinu að Oddeyrartanga, húsi nr. 6.
Fram kemur í bókun skipulagsnefndar að umrædd starfsemi falli ekki undir gildandi deiliskipulag svæðisins. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gaf út starfsleyfi fyrir m.a. móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi í nóvember í fyra. Fyrir liggur neikvæð umsögn stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands fyrir starfseminni þar sem m.a. er bent á að starfsemin brjóti í bága við skilmála deiliskipulags hafnarsvæðisins.
Ennfremur óskar skipulagsnefnd eftir því við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi Íslenska Gámafélagsins verði fellt úr gildi af sömu ástæðum. Í gildandi deiliskipulagi er umrætt svæði skilgreint undir matvælaiðnað (M) þar sem m.a. er gert ráð fyrir sláturhúsi, kjötiðnaðarstöð og stórum fiskvinnslufyrirtækjum.