„Öryggismálin eru alltaf tekin föstum tökum“

Kristján Páll í brúnni á Cuxhaven NC    Myndir Samherji og einkasafn
Kristján Páll í brúnni á Cuxhaven NC Myndir Samherji og einkasafn

Kristján Páll Hannesson stýrimaður er fastráðinn annar stýrimaður á Björgvin EA 311 en gegnir að auki margvíslegum öðrum stöðum á skipum Samherja. „Skip Samherja stunda margvíslegar veiðar, eru öll afar vel búin enda hef ég verið hjá Samherja eða tengdum félögum alla mína sjómennsku“. Kristján Páll segist þakklátur fyrir öll þau fjölbreyttu verkefni sem honum hefur verið trúað fyrir.

Úr háskólanámi í Stýrimannaskólann í Reykjavík

„Stefnan var alltaf að fara á sjóinn að loknu háskólanámi í íþróttafræðum í Bandaríkjunum. Fyrsti túrinn minn var árið 2012 á togaranum Odra NC, sem var gerður út frá Þýskalandi og einnig fór ég einn túr á togaranum Kiel. Sjómannskan heillaði greinilega unga manninn og ég er ekki enn kominn í land, nema í fríum. Ég skráði mig í fjarnám við Stýrimannaskólann í Reykjavík og aflaði mér þar skipstjórnarréttinda, meðan ég var á sama tíma á sjó. Þessi menntun hefur nýst vel í störfum mínum hjá Samherja“ segir Kristján Páll aðspurður um upphaf sjómennskunnar.

Allir klárir á sínum hlutverkum

„Já, það má segja það, sjómennskan er í ættinni. Líklega er fjölbreytnin helsti kosturinn við starfið en vissulega snýst þetta fyrst og fremst um að veiða. Maður veit í raun og veru aldrei hvernig dagurinn þróast. Einn daginn er kannski allt í skrúfunni hjá áhöfninni og hinn daginn ganga allir hlutir upp.

Sjómennskan er í grunninn hópvinna, þar sem hver og einn þarf að vera klár á sínu hlutverki. Eðli málsins samkvæmt er nándin ansi mikil á sjónum og menn eru oftast fljótir að kynnast, þannig að svarið verður kannski svolítið langt þegar spurningunni um helstu kosti sjómennskunnar er svarað. Þetta er ekki átta til fjögur vinna, svo mikið er víst.

 Oddeyrin EA , frönsk útgerð og Margrét EA

Kristján Páll er annar stýrimaður á Björgvin EA 311 en í gegnum tíðina hefur Samherji leitað til hans um að taka að sér ýmis verkefni á öðrum skipum félagsins.

„Já, sem er ótvíræður kostur og gerir starfið bara skemmtilegra og fjölbreyttara, þótt minn fasti punktur sé alltaf Björgvin. Samherji keypti fyrir tveimur árum síðan uppsjávarveiðiskip sem breytt var fyrir bolfiskveiðar, jafnframt er hægt að dæla fisk um borð og geyma lifandi í sér útbúnum tönkum. Þetta er sem sagt Oddeyrin EA og í mínum huga er þessi tækni mjög svo spennandi. Oddeyrin er nokkuð flókið skip og ég var svo heppinn að vera beðinn um að fara fyrstu túrana og prófa skipið. Á vissan hátt er Samherji þarna á undan sinni samtíð og þessi aðferðarfræði getur alveg gengið  upp. Hins vegar hefur komið í ljós að breyta þarf ýmsum reglugerðum áður en hægt er að halda áfram. Kannski er þetta framtíðin, veiða fiskinn og koma með hann lifandi til vinnslu.  Síðan var ég lánaður til franskrar útgerðar, sem lét breyta tveimur skipum í Slippnum á Akureyri, mitt hlutverk var að innleiða nýja verkferla um borð.

Nýjasta verkefnið er svo að vera stýrimaður á Margréti EA, sem er uppsjávarveiðiskip. Margrét er núna í Danmörku en fer væntanlega á makrílveiðar um miðjan júní. Þetta er hörku gott skip og vel með farið á allan hátt. Þau eru sem sagt ýmis verkefnin sem ég hef fengið tækifæri til að kljást við og fyrir það er ég þakklátur, þau fara beint í reynslubankann.“

Öryggismálin tekin föstum tökum

 Eitt af hlutverkum annars stýrimanns er að fylgjast með öryggismálum um borð í umboði skipstjóra. Kristján Páll segir að öryggismál séu alltaf tekin föstum tökum.  „Hjá Samherja starfar sérstakur öryggisstjóri sem fylgist með því að öllum áætlunum og reglum sé fylgt. Áhöfnin fer reglulega yfir öll öryggismál og efnt er til æfinga samkvæmt sérstakri áætlun. Góður sjómaður hugsar mjög mikið um öryggismál og fylgist með því að allir hlutir séu í lagi. Reyndar er það svo að öryggismálin hafa tekið breytingum til hins betra á undanförnum árum og um þessar mundir eru rafræn öryggiskerfi að ryðja sér til rúms. Slys gera ekki boð á undan sér og þess vegna má aldrei slaka á kröfunum.“

Sjómannadagurinn er dagur fjölskyldunnar

 „Jú jú, sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur. Áhöfnin kemur saman, fer út að borða um kvöldið og skemmtir sér. Fyrst og fremst er sjómannadagurinn þó dagur fjölskyldunnar, sem nýtur þess að vera saman og gleðjast. Við megum nefnilega ekki gleyma því að makar sjómanna standa oftar en ekki vaktina í landi, þegar sjómennirnir eru að heiman, þannig að í mínum huga er sjómannadagurinn líka þeirra dagur.“

 Makrílvertíð næsta verkefni

„Eins og staðan er núna, þá er ég í láni sem annar stýrimaður á Margréti EA, makrílvertíðin hefst um miðjan júní. Hjá mér er bara tilhlökkun, því ég hef aldrei verið á makrílveiðum. Sjómennskan heillar mig mjög og öll þessi verkefni sem mér hefur verið trúað fyrir eru hvetjandi,“ segir Kristján Páll Hannesson stýrimaður.

Birt fyrst á www.samherji.is

Margrét EA 710

Oddeyrin EA 210

 


Athugasemdir

Nýjast