Öryggismál endurskoðuð á SAk eftir alvarlegt atvik

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

„Starfsfólki og sjúklingum var eðlilega brugðið vegna atviksins og öllum boðin áfallahjálp í kjölfarið,“ segir Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússin á Akureyri í samtali við Vikudag. Í fyrrinótt kom upp alvarlegt atvik á sjúkrahúsinu þegar karlmaður í annarlegu ástandi gekk þar berseksgang. Mildi þykir að enginn hafi slasast.

Maðurinn kom á bráðamóttöku sjúkrahússins og vildi fá lyf og sýndi af sér ógnandi hegðun. Öryggisvörður á vakt kallaði til lögreglu. Maðurinn fór þá út og braut glugga í kjallara og komst þaðan upp á fæðingadeild. Á deildinni voru sængurkonur, makar þeirra og börn. Þar sýndi hann af sér ógnandi hegðun og stofnaði öryggi starfsfólks og sjúklinga í hættu, er fram kemur á vef sjúkrahússins. Lögreglu tókst að yfirbuga manninn áður en skaði hlaust af og var áfallateymi kallað til í kjölfarið.

"Verðum að skoða frekari hólfun í húsinu"

Bjarni segir að öryggisviðbúnaður á sjúkrahúsinu verði endurskoðaður í framhaldinu af atvikinu. Spurður hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í öryggismálum sjúkrahússins segir Bjarni ekki svo vera. „Maðurinn kom inn á bráðamóttökuna og þar var öryggisvörður sem meinaði honum að komast lengra og hringdi svo í lögregluna. Maðurinn finnur þá leið inn með því að brjóta glugga og komst þar inn á gangana. Þar tókst honum að brjótast í gegnum okkar ytri varnir sem segir okkur það að við verðum að skoða frekari hólfun í húsinu. Við höfum verið að þróa okkur í þá átt en vorum ekki komnir lengra. Ef þetta hefði gerst eftir mánuð hefði hann ekki komist svona langt,“ segir Bjarni.

Um einstakt atvik að ræða

Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort bætt verði við öryggisstarfsmönnum vegna málsins. „Okkur aðgerðir hvað varðar öryggi verða metnar útfrá þessari reynslu og verður tekið fyrir á næstu dögum.“

Bjarni segir að um einstakt atvik sé að ræða. „Það hefur aldrei gerst áður að einstaklingur hafi gengið svona langt og stofnað öðru fólki í hættu. Ég vona að slíkt komi aldrei fyrir aftur og það er okkar að tryggja það.“

 

 

 

Nýjast