Öruggur þýskur sigur á Þórsvelli
Þýska liðið Turbine Potsdam sigraði Þór/KA örugglega er liðin mættust á Þórsvelli í dag í fyrri leik liðanna í 32-liða úrsitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Potsdam hafði völdin á vellinum en norðanstúlkur áttu þó ágætis spretti inn á milli og miðað við styrkleika andstæðingsins geta norðanstúlkur verið ágætlega sáttar við sinn leik, en þær mættu einfaldlega ofjörlum sínum í dag.
Þór/KA byrjaði leikinn ágætlega og Mateja Zver kom sér í fínt færi strax á 4. mínútu með miklu harðfylgi en skot hennar úr þröngu færi fór yfir markið. Gestirnir fóru að sækja á eftir rólega byrjun og sköpuðu sér ágætis færi en hin 18 ára gamla Helena Jónsdóttir varði vel í tvígang í marki heimamanna, í bæði skiptin frá Odebrecht Violu.
Það var hins vegar á 11. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom og það var sjálfsmark heimamanna. Sending kom inn á teiginn þar sem Arna Sif Ásgrímsdóttir ætlaði að pota boltanu framhjá en lagði boltann þess í stað í netið. Slysalegt mark sem setti Þórs/KA liðið úr jafnvægi og aðeins tveimur mínútum síðar var staðan orðinn 2-0. Nagasoto Yuki bætti við öðru marki gestina með skoti af stuttu færi inn í teig en þegar þarna var komið við sögu höfðu gestirnir tekið öll völd á vellinum.
Þór/KA reyndi að beita skyndisóknum og er einni þeirra komst Sandra Maria Jessen í fínt færi eftir um hálftíma leik er hún var sloppin í gegn, en Sandra var utarlega í teignum og skotið framhjá.
Það voru aðeins fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar þriðja mark Potsdam kom. Aftur var það Yuki Nagasato á ferðinni en eftir góða sókn gestanna sendi Yuki boltann í netið af stuttu færi. Algjör einstefna á Þórsvelli þar sem heimamenn fóru vart yfir miðju framan af seinni hálfleik. Yuki fullkomnaði svo þrennu sína á 58. mínútu með laglegu marki. Hún fékk boltann utarlega í teignum og smurði boltann í bláhornið fjær. Babetti Peter og Anonma Geneveva bættu svo við sitthvoru markinu fyrir Potsdam áður en yfir lauk og öruggur þýskur sigur.