Þór/KA hóf leikinn af krafti. Rakel Hönnudóttir fékk fyrsta færi leiksins á 9. mínútu er hún fékk sendingu inn í teig frá Örnu Sif Ásgrímsdóttur en skot hennar fór beint á markvörð Keflavíkur.
Þórs/KA stelpur sóttu grimmt næstu mínúturnar og fyrsta markið lá í loftinu hjá heimastúlkum. Það kom á 22. mínútu og þar var að verki Vesna Smiljkovic er hún kom heimastúlkum yfir eftir að hafa fengið sendingu upp hægri kantinn og skorað með góðu skoti.
Heimastúlkur héldu áfram að sækja og á 37. mínútu kom annað mark Þórs/KA í leiknum. Það gerði Elva Friðjónsdóttir af stuttu færi eftir frábæra sókn þeirra norðlensku. Staðan orðin 2-0 fyrir Þór/KA og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þórs/KA stúlkur hófu seinni hálfleikinn af krafti og pressuðu gestina stíft sem áttu fá svör við góðum leik heimastúlkna. Á 55. mínútu kom þriðja mark Þórs/KA í leiknum. Það gerði fyrirliðinn, Rakel Hönnudóttir. Mateja Zver sendi þá boltann fyrir mark gestanna þar sem Rakel var mætt og renndi sér í boltann og skoraði örugglega framhjá markverði Keflavíkur. Staðan 3-0 og heimastúlkur í fínum málum.
Keflavíkurstúlkur náðu að klóra í bakkann með marki beint úr aukaspyrnu á 57. mínútu og minnkuðu muninn í 3-1.
Gestirnir náðu þó ekki að fylgja markinu eftir og Þórs/KA stúlkur svöruðu með tveimur mörkum. Fyrst frá Mateju Zver 83. mínútu er hún skallaði boltann inn í markið eftir aukaspyrnu frá Vesnu Smiljkovic.
Það var svo Vesna sjálf sem skoraði síðasta mark leiksins þremur mínútum fyrir leikslok, sitt annað mark í leiknum og fimmta mark Þórs/KA og kórónaði þar með stórleik sinn í leiknum í kvöld.
Lokatölur á Akureyrarvelli, 5-1 sigur Þórs/KA sem eru eftir leikinn í 5. sæti deildarinnar með tíu stig eftir sjö leiki.