Öruggur sigur Þórs/KA á GRV í kvöld

Þór/KA vann í kvöld stórsigur á liði GRV er liðin mættust í 12. umferð Pepsi- deildar kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum. Gestirnir í GRV byrjuðu leikinn ágætlega en heimastúlkur tóku fljótlega öll völd í leiknum og unnu að lokum 7-0 sigur, sem hefði þó hæglega geta orðið stærri. 

Fyrsta mark leiksins kom eftir átta mínútna leik og það gerði Elva Friðjónsdóttir er hún tók boltann á lofti inn í teig gestanna og skoraði með laglegu skoti. Heimastúlkur héldu áfram að sækja að marki GRV sem áttu fá svör við góðum leik Þórs/KA. Á 28. mínútu átti Rakel Hönnudóttir sendingu inn fyrir vörn gestanna á Vesnu Smiljikovic sem skoraði af harðfylgi og kom Þór/KA í 2-0 eftir tæplega hálftíma leik.

Tíu mínútum síðar kom flott sókn hjá heimastúlkum. Arna Sif Ásgrímsdóttir átti laglega stungusendingu á Vesnu Smiljikovic sem renndi boltanum inn í teig gestanna á Mateju Zver sem skoraði auðveldlega framhjá markverði GRV.

Staðan 3-0 í hálfleik.

Heimastúlkur héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og það tók þær rétt um fjórar mínútur að skora fjórða mark leiksins. Mateja Zver átti þá góða fyrirgjöf fyrir mark gestanna sem rataði beint á kollinn á Rakel Hönnudóttir sem skallaði boltann í netið. Aðeins sex mínútum síðar bætti Rakel við sínu öðru marki í leiknum. Vesna Smiljikovic átti sendingu inn í teig gestanna þar sem Rakel var ein á óðum sjó og átti ekki í vandræðum með að skalla boltann í netið. Staðan 5-0.

Arna Sif Ásgrímsdóttir bætti við sjötta marki Þórs/KA í leiknum á 83. mínútu er hún fékk boltann fyrir utan teig gestanna og skoraði með glæsilegu skoti. Það var svo Mateja Zver sem átti lokaorðið er hún innsiglaði öruggan 7-0 sigur Þórs/KA með marki sex mínútum fyrir leikslok.

Eftir 12. umferðir er Þór/KA í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig.

Nýjast