Akureyri Handboltafélag vann nú rétt í þessu frábæran útisigur á slöppu liði Víkinga í Reykjavík. Sigur Akureyrar var fyllilega sanngjarnt enda hafði liðið yfirhöndina allan leikinn. Akureyri byrjaði leikinn frábærlega og komst í 5-2. Í þeirri stöðu var skyttan sterka Árni Þór Sigtryggsson rekinn útaf í 2 mínútur og Víkingar gengu á lagið og jöfnuðu í 5-5.
Þá snérist hins vegar dæmið við, heimamenn misstu mann af velli og Akureyri komst aftur þrem mörkum yfir 8-5 þegar 15 mín voru búnar af hálfleiknum. Mikil barátta var svo seinni hluta hálfleiksins þar sem munurinn var alltaf 1-3 mörk Akureyri í vil, það var Andri Snær Stefánsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks úr víti og kom Akureyri 15-13. Sóknarleikur Akureyrar var mjög góður í fyrri hálfleik og varnarleikurinn fínn, Hafþór Einarsson markvörður náði sér hins vegar ekki á strik í hálfleiknum.
Akureyri komst í fimm marka forystu þegar um 10 mín voru liðnar af síðari hálfleik en gerðu heimamenn sig líklega til að komast aftur inn í leikinn með því að minnka muninn í þrjú mörk 21-18 þegar 15 mín voru til leiksloka 21-18. Akureyringar litu ekki um öxl það sem eftir var leiks og héldu forystunni í tveimur til þremur mörkum allt þar til í lokin að Víkingar gáfust upp og gestirnir kláruðu leikinn með fimm marka mun 28-23. Varnarleikur Akureyrar í síðari hálfleik var frábær auk þess sem Hafþór Einarsson vaknaði svo um munaði í síðari hálfleik og varði eins og berserkur.
„Við vissum að Víkingarnir væru mjög seigir og það var erfitt að hrista þá af sér, en ég er mjög sáttur við þennan sigur í dag. Við vorum að leiða þetta með 2-3 mörkum en það þurfti lítið til að missa þetta frá sér, þess vegna var ég mjög sáttur við að klára leikinn. Ég var mjög sáttur við liðsheildina í leiknum og hefði ekki trúað því fyrir fimm vikum að við myndum klára svona leik með venjulegum leik frá okkur en við gerðum það í dag,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Akureyrar eftir leikinn viðtalið við fréttamenn RÚV sem sýndi leikinn í beinni útsendingu.
Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar var einnig í viðtali og hafði þetta að segja: „Það sem að gekk upp hjá okkur í dag var varnarleikur og markvarsla í seinni hálfleik. Við fengum mörg tækifæri til að ganga frá þeim en nýttum þau ekki, þeir voru að berjast og mikil seigla í þeim að gefast ekki upp. Við hins vegar kláruðum þetta vel í lokin.“
Akureyri er eftir sigurinn í þriðja sæti deildarinnar með 6 stig, jafn mörg og FH-ingar sem eru í öðru sæti en þeir hafa einu marki betur í markatölu. Sannarlega frábær byrjun á tímabilinu hjá Akureyri sem leikur næst á heimavelli gegn Val nk. fimmtudag.