Öruggt hjá Þór/KA gegn Grindavík

Þór/KA er komið upp í þriðja sæti Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu eftir 3:0 sigur í kvöld gegn Grindavík á heimavelli. Þór/KA hafði mikla yfirburði í leiknum, en Grindavík vermir botnsæti deildarinnar með aðeins eitt stig. Þór/KA er hins vegar komið með 22 stig í þriðja sæti, tveimur stigum meira en ÍBV sem situr í fjórða sæti en á leik til góða. Manya Makoski kom aftur inn í lið Þórs/KA eftir leikbann í síðustu umferð og hún skoraði tvívegis í kvöld, en Marisha Schumacher skoraði eitt mark.

Heimamenn tók öll völd í leiknum strax á fyrstu mínútu. Það tók Þór/KA tæplega þrettán mínútur að brjóta ísinn og það gerði Marisha Schumacher með þrumuskoti utan teigs sem fór í þverslána og inn. Manya Makoski kom Þór/KA í 2:0 á 33. mínútu með marki af stuttu færi inn í teig.Staðan 2:0 í hálfleik.

Þór/KA byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var nálægt því að bæta við þriðja markinu í tvígang á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins. Eitthvað varð undan að láta og Manya Makoski skoraði sitt annað mark í leiknum á 53. mínútu. Sandra María Jessen átti sendingu inn fyrir markið vinstra megin og þar tók Manya viðstöðulaust við boltanum sem söng í netinu.

Staðan 3:0.

Fátt gerðist það eftir lifði leiks og öruggur sigur heimamanna staðreynd.

Nýjast